Innlent

Opnuðu nafnlausa ísbúð meðan bæjaryfirvöld skoða Eden-nafnið

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Eden brann. Hvort ísbúð fær að heita Eden skýrist síðar.
Eden brann. Hvort ísbúð fær að heita Eden skýrist síðar. Fréttablaðið/Pjetur
„Ísbúðin er opin en hún er ekki með nafn hins vegar,“ segir Íris Tinna Margrétardóttir, eigandi ísbúðarinnar í Sunnumörk í Hveragerði. Íris og eiginmaður hennar óskuðu í maí eftir því að fá að endurvekja nafnið Eden og nota á ísbúðina.

Málið vakti athygli er það var tekið fyrir í bæjarráði Hveragerðisbæjar 16. maí. Í umfjöllun ráðsins kom fram að bærinn hefði keypt nafnmerkið Eden í kjölfar brunans í Eden 2011. Vildi bæjarstjórnin að starfsemi í Hveragerði sem líktist Eden gæti nýtt nafnið. Nú tæpum átta árum eftir brunann bólar ekkert á slíku, komin er íbúabyggð á gamla Eden-reitinn en eigendur ísbúðarinnar vildu halda í hið merkingarþrungna nafn, dusta af því rykið og nýta sem Ísbúðin Eden.

Fram kom í erindi hjónanna þann 16. maí að til stæði opna búðina viku síðar. Bæjarráð frestaði hins vegar afgreiðslu málsins til næsta bæjarstjórnarfundar. Sá fundur hefur ekki enn farið fram. Málið er því enn í vinnslu og á meðan beðið er eftir stjórnsýslunni neyddust Íris Tinna og eiginmaður hennar til að opna nafnlausa ísbúð í millitíðinni, enn vongóð um að tekið verði í erindið á jákvæðan hátt. Þau vilja þó ekki tjá sig um málið fyrr en niðurstaða bæjarins liggur fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×