Innlent

Stefnir í rennblautt hæ hó og jibbí jei

Jakob Bjarnar skrifar
Veðurspár segja að það muni rigna duglega 17. júní. Hér getur að líta Hauk Ingibergsson, þann sem samdi Hæ hó jibbí jei-lagið sem allir landsmenn syngja á þjóðhátíðardaginn.
Veðurspár segja að það muni rigna duglega 17. júní. Hér getur að líta Hauk Ingibergsson, þann sem samdi Hæ hó jibbí jei-lagið sem allir landsmenn syngja á þjóðhátíðardaginn. fbl/ernir
Eftir brakandi góðviðri og sólskin virðist sem ekki verði brugðið frá hefðinni um rigningu á lýðveldisdaginn, 17. júní. Það stefnir því í að candy flossið leki niður og hárgreiðslan fari fyrir lítið.

Haraldur Eiríksson veðurfræðingur segir reyndar, í samtali við Vísi, það svo vera að það rigni ekkert frekar á 17. júní en aðra daga. Menn taki bara frekar eftir því þá.

Heldur er kortið rigningarlegt á þjóðhátíðardaginn. En, huggun harmi gegn er að ekki verður rok ef veðurspár ganga eftir.
Haraldur segir að þetta sé svona inni í spánni frá í morgun, að það eigi að byrja að rigna um eftirmiðdaginn og svo stefni í verulega vætu um kvöldið. Að þá muni rigna duglega um suðvestanvert landið en reyndar verður vætu vart um land allt.

„Jájá, það er kannski óþarfi að það rigni einmitt þá. Hefði mátt byrja að rigna fyrr. Það er allt orðið skraufþurrt,“ segir veðurfræðingurinn.

Það er þó huggun harmi gegn, þeim sem ætla að halda þjóðhátíðardaginn hátíðlegan, að ekki verður boðið uppá rok með þessari rigningu. Og þá er bara að spenna regnhlífina.

„Þetta skýrist nánar þegar nær dregur. Enn er nokkuð í þetta eða þrír dagar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×