Innlent

Þrír handteknir vegna gruns um ölvunarakstur

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
86 mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá því klukkan fimm í gær til fimm í nótt.
86 mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá því klukkan fimm í gær til fimm í nótt. Vísir/Vilhelm
Nokkrir voru teknir grunaðir um ölvun við akstur á höfuðborgarsvæðinu í nótt, en alls voru 86 mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá því klukkan fimm í gær til fimm í nótt.

Í hverfi 101 voru höfð afskipti af konu sem borgaði ekki fyrir leigubifreið og verður hún kærð fyrir fjársvik. Þar var kona einnig handtekin grunuð um líkamsárás gegn dyraverði, hún neitaði að segja til nafns og gefa upp hver hún væri og var hún því vistuð í fangageymslu.

Í hverfi 108 hafði lögreglan afskipti af manni annarlegu ástandi þar sem hann var að skemma tré og staura við skóla í hverfinu. Verður hann kærður fyrir eignaspjöll og brot á lögreglusamþykktum í kjölfarið.

Í hverfi 210 varð umferðaróhapp á áttunda tímanum í gærkvöldi. Ökumaður ók bifreið sinni á grindverk. Ekki urðu slys á fólki en fjarlægja þurfti bifreiðina með dráttarbifreið á vettvangi.

Í gærkvöldi var umferðardeild lögreglunnar við hraðamælingar á Suðurlandsvegi á Sandskeiði. Fjórtán ökumenn voru stoppaðir þar fyrir hraðakstur. Einnig var eftirlit á Hafnarfjarðarvegi þar sem kannað var með ástanda ökumanna og ökuréttindi þeirra. Afskipti voru höfð af 120 ökumönnum og voru þrír af þeim handteknir grunaðir um ölvun við akstur. Voru þeir látnir lausir eftir skýrslutöku.

Einnig sinntu lögreglumenn í öllum hverfum mörgum kvörtunum vegna hávaða frá tónlist í heimahúsum, framkvæmdahávaða á vinnustöðum og frá skemmtistöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×