Innlent

Vandræðagangur með gírskiptingu olli slysi við flugstöðina

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar. fréttablaðið/ernir
Ökumaður og farþegi í bifreið hans voru fluttir með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í vikunni eftir umferðarslys í Grindavík. Farþeginn hlaut áverka á höfði en var þó ekki talinn alvarlega slasaður.

Tildrög slyssins voru þau að ökumaður annarrar bifreiðar sinnti ekki stöðvunarskyldu og ók í veg fyrir fyrrgreindu bifreiðina.

Þá varð umferðaróhapp við Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar ferðamaður lenti í vandræðum með gírana á bifreið sem hann ók með þeim afleiðingum að hún snarstöðvaðist á veginum. Annar ökumaður sem á eftir kom var þessu óviðbúinn og ók aftan á bifreið ferðamannsins. Raunar taldi hann að ferðamaðurinn hefði ekið aftur á bak þegar óhappið varð. Ekki urðu slys á fólki.

Þá voru fáeinir ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur og einn ók á nagladekkjum. Bifreið hins síðastnefnda var óskoðuð og voru skráningarmerki tekin af henni.

Karlmaður á fimmtugsaldri sem lögreglan á Suðurnesjum handtók í fyrradag vegna gruns um dreifingu og sölu fíkniefna játaði við skýrslutöku að hafa stundað það athæfi um nokkurt skeið. Jafnframt framvísaði hann kannabisefnum sem hann kvaðst hafa ætlað að selja og afsalaði þeim til eyðingar hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×