Innlent

Hæg­lætis­veður á landinu en hvessir síð­degis

Atli Ísleifsson skrifar
Síðdegis á morgun mun snúast í sunnanátt með dálítilli rigningu sunnan og vestantil.
Síðdegis á morgun mun snúast í sunnanátt með dálítilli rigningu sunnan og vestantil. vísir/vilhelm
Veðurstofan spáir hæglætisveðri i dag, þurru og björtu þar sem hitinn verður á bilinu þrjú til tíu stig.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að spáð sé vaxandi austanátt sunnan heiða síðdegis, tíu til átján metrum á sekúndu. Rigning í kvöld og hvassast syðst á landinu.

Síðdegis á morgun mun svo snúast í sunnanátt með dálítilli rigningu sunnan og vestantil, en lengst að þurrt nyrðra. Hiti verður á bilinu átta til fimmtán stig, hlýjast norðanlands.

„Víðast hvar var frost í nótt en í kvöld koma skil upp að landinu sunnaverðu með rigningarskil og mildara loft í farteskinu. Eins og svo oft áður nær rigningin við illan leik norður yfir heiðar þannig að Norðlendingar verða láta sér lynda að fá bara mildar suðlægar áttir á meðan íbúar á sunnaverðu landinu taka við vætunni. Áfram gera spár ráð fyrir mildum suðlægum áttum í komandi viku og ættu áhrif norðan hretsins að verða búinn seint á morgun.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag og miðvikudag: Sunnan og suðaustan 8-13 m/s, skýjað og dálítil rigning öðru hverju S- og V-lands. Hægari vindur og bjart með köflum á N- og A-landi. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðan heiða. 

Á fimmtudag: Sunnan 3-8 og víða léttskýjað N- og A-lands, en skúrir á S- og V-landi. Hiti breytist lítið. 

Á föstudag og laugardag: Austlæg átt og víða léttskýjað á NA-verðu landinu, annars skýjað með köflum og stöku skúrir. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast á NA-landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×