Innlent

Óvelkominn maður ógnaði húsráðendum með hafnaboltakylfu

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglu hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögreglu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm
Húsráðendur í Hafnarfirði óskuðu eftir aðstoð lögreglu um miðnætti vegna óvelkomins manns í íbúð þeirra. Maðurinn, sem var í mjög annarlegu ástandi, neitaði að fara og ógnaði húsráðendum með hafnaboltakylfu. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar en þar segir að lögreglu hafi einnig borist tilkynning á sjöunda tímanum í gærkvöldi vegna þjófnaðar úr starfsmannaaðstöðu opinberrar stofnunar í hverfi 103. Mikið af alls kyns munum stolið. Hinn grunaði var handtekinn síðar og þýfið endurheimtist. Var maðurinn vistaður í fangageymslu lögreglu en hann verður yfirheyrður í dag.

Tilkynnt var um búðarhnupl í hverfi 101 en þar var matvöru stolið. Var málið afgreitt á vettvangi og sakborningur laus að því loknu.

6 ökumenn voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis / fíkniefna. Allir nema einn voru látnir lausir eftir sýnatöku. Þessi eini var ofurölvi og varð að vista í fangageymslu þar til ástand hans lagast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×