Lífið

„Dóttir mín var farin að segja að hún vildi verða stór eins og mamma“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sylvía segist hafa notað mat sem huggun - hún hafi greinst með fæðingarþunglyndi og liðið illa á bæði líkama og sál.
Sylvía segist hafa notað mat sem huggun - hún hafi greinst með fæðingarþunglyndi og liðið illa á bæði líkama og sál. Skjáskot/Stöð 2
Sylvía Haukdal, menntaður eftirréttakokkur og tveggja barna móðir, var orðin 112 kíló og hætt að geta leikið við dætur sínar þegar hún ákvað að taka sig á. Hún fór í svokallaða magaermisaðgerð og hefur nú lést um 40 kíló.

Sylvía lýsti ferlinu í þættinum Íslandi í dag sem sýndur var á Stöð 2 í gær. Eftir að hafa prófað alla megrunarkúra sem í boði eru án árangurs ákvað hún að skella sér í aðgerðina, sem Sylvía segir hafa veitt sér nýtt líf.

„Dóttir mín var farin að segja að hún vildi verða stór eins og mamma og fannst mamma náttúrulega flottust, þá var ég svolítið slegin í andlitið, að ég væri kannski ekki besta fyrirmyndin í því ástandi sem ég var þá, líkamlega og andlega. Þú vilt geta leikið við börnin þín og gert allt með þeim. Þú átt að vera þessi heilbrigða fyrirmynd fyrir þau.“

Sylvía greindist með meðgönguþunglyndi þegar hún gekk með dóttur sína og segir að á sama tíma hafi hún áttað sig á því að henni hafi ekki liðið vel í langan tíma. Hún hafi þá notað mat sem huggun.

Pakksödd eftir eitt egg

Þá segist hún hafa verið meðvituð um áhættuna sem fylgir því að fara í stóra aðgerð af þessum toga en segir lækna sína alltaf hafa staðið þétt við bakið á sér. Móðir Sylvíu fylgdi henni út til Svíþjóðar þar sem hún dvaldi í nokkra daga eftir aðgerð og segir Sylvía að stuðningur móður sinnar hafi verið ómetanlegur.

„Þetta fannt mér vera leiðin, að gera þetta svona, þetta var náttúrulega ógeðslega dýrt en bara samt svo þess virði. Ég lifi lengur og er hamingjusamari fyrir vikið.“

En hvernig gekk Sylvíu að aðlagast því að geta ekki borðað allt sem hún hafði verið vön að borða?

„Fyrstu dagarnir voru skrautlegir. Maður er fyrstu tvær vikurnar á fljótandi fæði og er ráðlagt að vera undir 5 prósentum í sykri,“ segir Sylvía. „Þetta var rosalega leiðinlegur tími.“

Þá hafa matarskammtar Sylvíu rýrnað töluvert eftir aðgerðina, sem minnkar umfang magans um nær 90 prósent. „Besta lýsingin er: eitt spælt egg, þá er ég orðin pakksödd.“

Innslagið um Sylvíu má sjá í heild í spilaranum hér að neðan.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.