Lífið

Öll Eurovision-vötn falla til Hollands

Benedikt Bóas og Ingólfur Grétarsson skrifar
Duncan Laurence með lagið Arcade er talinn líklegur til sigurs í kvöld þrátt fyrir frekar einfalda sviðsetningu en lagið er grípandi.
Duncan Laurence með lagið Arcade er talinn líklegur til sigurs í kvöld þrátt fyrir frekar einfalda sviðsetningu en lagið er grípandi. Mynd/Thomas Putting
Hollendingar eru taldir líklegastir til að vinna Eurovision ef eitthvað er að marka veðbanka. Aðdáendur hér í Tel Avív eru þó ekki á því að lagið eigi skilið að vinna og það er eiginlega sama við hvern er rætt, enginn vonast eftir sigri Duncans Laurence með lagið sitt Arcade.

„Ég skil ekki alveg þessa ást sem Holland er að fá frá veðmálafyrirtækjum,“ sagði Duje frá Króatíu og þeir Neil og Sergey frá Rússlandi tóku í sama streng. „Þetta er leiðinlegt lag miðað við Hatara, sem er með frábært lag,“ sögðu þeir nánast í kór.

Laurence og hans fólk gistir á sama hóteli og íslenski hópurinn en alls eru um tíu Eurovision-hópar á Dan Panorama hótelinu. Eftir úrslit fimmtudagsins var fagnað með smá skvettu af kampavíni og vildu margir fá mynd af sér með kappanum. Alveg sama hvort það var andstæðingur í úrslitunum í kvöld eða einhverjir úr hópunum.

Ljósmyndari Morgunblaðsins smellti af fallegri mynd en fékk fljótt yfir sig skammir; að þetta væri einkasamkvæmi og hann yrði að gjöra svo vel að eyða myndinni. Engar alvöru myndir sem sagt, bara á samfélagsmiðla. Það getur verið erfitt að skilja heim Eurovision.

Írski hópurinn fagnaði sínum árangri með hálf undarlegum hætti en framlag Íra komst ekki áfram. Þau sungu fram eftir nóttu sitt eigið lag og drukku að írskum sið. Flestir voru sammála að þegar þau voru búin að syngja lagið sitt í sjö skipti að nú væri mál að linnti.

Hatari tók gærdaginn snemma. Æfði aukalega og var mætt eldsnemma í keppnishöllina en með góða skapið í farteskinu. Atriðið er númer 17 á svið sem er sama númer og Lordi og Loreen fengu. Það muna flestir ef ekki allir eftir þeim lögum.

Í íslenska hópnum, þar sem eru fjölmiðlamenn og aðrir spekúlantar, er fólk orðið spennt fyrir Áströlum og Ítölum. Það var rætt í morgunmatnum í gær að það væri þó einhver ára yfir Svíunum. Einhver sigurára, en framlag þeirra gæti þó fallið vegna rasisma því þeir eu allir dökkir á hörund.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×