Innlent

Fjögurra hæða blokk reist á hálfum mánuði

Sighvatur Jónsson skrifar
Fjögurra hæða fjölbýlishús var reist í Reykjanesbæ á aðeins hálfum mánuði. Þetta er í fyrsta sinn sem byggð er blokk úr timbureiningum hér á landi.

Við Móavelli í Reykjanesbæ er risið fyrsta fjölbýlishúsið á Íslandi sem er gert úr forsmíðuðum timbureiningum.

Einingarnar eru smíðaðar innandyra í verksmiðju í Noregi. Þær voru fluttar sjóleiðina til Íslands og ekið á byggingarstað. Þar voru kranar notaðir til að púsla íbúðunum saman í fjölbýlishús. Húsið reis á innan við tveimur vikum.

Fjölbýlishúsið er reist af Klasa. Félagið hefur þróað, hannað og byggt upp íbúðahverfi.

Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, segir að þetta sé fyrsta verkefnið af þessu tagi.

„Ef markaðurinn tekur þessi vel eru alveg forsendur fyrir því að gera þetta á höfuðborgarsvæðinu og víðar.“

27 íbúðir eru í húsinu. Um helmingur þeirra er seldur.

„Þetta er umhverfisvænn byggingarmáti. Þetta er timbur, það er miklu minna kolefnisspor á svona byggingum en hefðbundnum steypumannvirkjum,“ segir Ingvi Jónasson hjá Klasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×