Innlent

Áfram fylgst náið með brjóstapúðum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talið er að að um 470 konur hérlendis hafi fengið þá tegund brjóstapúða sem sjónir beinast að ígrædda.
Talið er að að um 470 konur hérlendis hafi fengið þá tegund brjóstapúða sem sjónir beinast að ígrædda. Vísir/Getty
Ekki er talin þörf á því að grípa til sérstakra aðgerða vegna kvenna sem eru með brjóstapúða sem tengdir hafa verið við sjaldgæft eitilfrumukrabbamein. Enginn dæmi eru um að kona hafi greinst með eitilfrumukrabbamein tengt brjóstapúðum hér á landi.

Í tilkynningu á vef Landlæknis segir að púðarnir sem sjónir hafa einkum beinst að séu með hrjúfu yfirborði og framleiddir af lyfjafyrirtækinu Allergan. Umræddir púðar voru notaðir hér á landi á árunum 2007 til 2015 en innflutningi þeirra var hætt um mitt ár 2015.

Talið er að á þessu árabili hafi um 470 konur hérlendis fengið þessa tegund brjóstapúða ígrædda. Embætti landlæknis og Lyfjastofnun segjast fylgjast grannt með alþjóðlegri umfjöllun heilbrigðisyfirvalda og eftirlitsaðila í Evrópu um brjóstapúðana vegna tengsla þeirra við BIA-ALCL-krabbamein.

Ekki er þó talin þörf á að grípa til sérstakra aðgerða vegna þeirra kvenna sem eru með þessa brjóstapúða. Um þetta eru alþjóðlegar stofnanir og sérfræðingar sammála í ljósi þess að meinið sé sjaldgæft og einkenni þess afgerandi, að því er segir í tilkynningunni.

Hafa Embætti landlæknis og Lyfjastofnun tekið saman spurningar og svör með upplýsingum og fræðslu um eitilfrumukrabbamein tengt brjóstapúðum, þar sem nánar má fræðast um krabbameinið, einkenni og viðbrögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×