Innlent

Rósa Björk á Evrópuráðsþinginu: Kynferðisleg áreitni faraldur sem þurfi að tækla

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rósa Björk hélt innblásna ræðu á vorþingi Evrópuráðsþingsins í gær.
Rósa Björk hélt innblásna ræðu á vorþingi Evrópuráðsþingsins í gær.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fulltrúi íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, hélt innblásna ræðu á vorþingi Evrópuráðsþingsins í gær um alvarleika kynferðislegrar áreitni á þjóðþingum.

Umfang vandans væri slíkt að hægt væri að tala um faraldur í því samhengi og því þyrfti að tækla vandann eins og um faraldur væri að ræða; hratt og örugglega.

Tilefnið var rannsókn Evrópuráðs og Alþjóðaþingmannasambandinu á karlrembu, kynferðislegu ofbeldi og áreitni í þjóðþingum og byggir hún á viðtölum við 123 konur frá 45 Evrópulöndum.

85,2% þingkvenna sögðust hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi á meðan þær sátu á þingi. Tæp 47% kvenna sem voru spurðar höfðu fengið líflátshótanir eða hótanir um barsmíðar og 58% þeirra höfðu orðið fyrir aðkasti á netinu. Tæp 15 prósent kvennanna sögðust hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og 40,5% þeirra kváðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á meðan þær voru við störf í þinginu. Í 69% tilfella voru karlkyns þingmenn að verki samkvæmt svörum kvennanna í rannsókninni.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata og formaður laga-og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, er framsögumaður skýrslu sem byggði meðal annars á rannsókninni. Evrópuráðsþingið samþykkti í gær þingsályktun og tilmæli Þórhildar Sunnu til aðildarríkja Evrópuráðsins.


Í ræðu sinni tók Rósa Björk mið af sláandi niðurstöðum rannsóknarinnar og velti fyrir sér hver raunveruleg staða mála væri hjá konum í Evrópu í ljósi þess hve yfirgripsmikið vandamál karlremba og kynferðisleg áreitni í þjóðþingum væri gagnvart konum í stjórnmálum.

Þær búi við mikil forréttindi; séu þjóðkjörnar, hafi völd og geti látið til sín taka á hinum pólitíska vettvangi.

„Hvernig eiga þær að stíga fram, opna sig um reynslu sína af kynferðislegri áreitni, stuðla að vitundarvakningu og tækla vandann ef við getum það ekki?“ spurði Rósa Björk og beindi orðum sínum til kollega sinna á Evrópuráðsþinginu.

Hún sagði að það væri einmitt forréttindastaða þeirra á þinginu sem færði þeim tækifæri til að láta til sín taka í þessum málaflokki, setja skýr viðmið og senda kraftmikil skilaboð út í samfélagið um að kynferðisleg áreitni verði ekki liðin.

Rósa Björk kallaði eftir trúverðugum aðgerðum til að bregðast við niðurstöðum rannsóknarinnar. Hún var mjög hlynnt þeim leiðum sem mælt var með í skýrslunni, eins og refsingu í samræmi við alvarleika brots og að setja á fót kvörtunarkerfi.

Undir lok ræðu sinnar beindi Rósa Björk orðum sínum til Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins og fulltrúa Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, og sagði að það væri bæði óviðeigandi og óásættanlegt að hann talaði með þeim hætti sem hann gerði á Evrópuráðsþinginu í ljósi þess að karlrembutal hans um kvenkyns þingmann hefði náðst á upptöku.

Bergþór sagði í jómfrúarræðu sinni á Evrópuráðsþinginu um skýrslu Þórhildar Sunnu að mikilvægt væri að stíga varlega til jarðar varðandi refsiaðgerðir gegn þingmönnum vegna brota á siðareglum þjóðþinga. Hætt væri við því að stjórnmálamenn nýttu slík tækifæri til að koma höggi á andstæðinga í nafni pólitísks rétttrúnaðar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.