Lífið

Andrea og Þorleifur kynntust á Tinder og er nú fjölskyldan að verða tíu manna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Andrea Eyland er 38 ára gömul, höfundur bókarinnar Líf kviknar og stjórnandi þáttarins Líf kviknar en bæði bókin og þættirnir fjalla um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Andrea á von á sínu fimmta barni og saman eiga þau Þorleifur unnusti hennar sjö börn og verður því drengurinn sem von er á í sumar áttunda barnið sem bætist í fjölskylduna.

Andrea er mikil ævintýrakona og er nýorðin jógakennari, en hún og Þorleifur eru nýkomin heim frá Maui þar sem þau lærðu grunnkennaranám í jógafræðum. Eva Laufey Kjaran kíkti í heimsókn til Andreu nú á dögunum og fékk að heyra hvað væri framundan varðandi Kviknar, um stórfjölskylduna og jóganámið á Maui.

„Það var svo margt sem við náðum ekki að tala um og þetta var bara svona toppurinn á ísjakanum í Líf kviknar,“ segir Andrea.

Þetta er fimmta meðganga Andreu og það var ekki úr vegi úr spyrja hvernig hún nær að halda öllum boltum á lofti með svo stóra fjölskyldu.

„Þegar fólk eignast sitt fyrsta barn þá umturnast lífið. Þú getur haldið áfram með allt þitt og getur látið alla þína drauma rætast, börnin eru ekkert að stoppa þig. Svo bætast við fleiri börn en þú býrð bara til þitt eigið skema út frá því hvað þú ert með mörg börn. Ég hef verið ein með þrjú börn og núna saman með átta börn en þetta fer bara allt eftir púsluspilinu hvernig þú hagar lífinu þínu í kringum í þetta. Við erum sammála um það að við lítum ekki á börnin okkar sem eign, við eigum þau ekki. Þau bara komu til okkar og við berum ábyrgð á þeim. Við viljum gefa þeim gott líf og við elskum þau en þau eru bara sínir eigin einstaklingar.“

Andrea segir að það sé mjög stórt verkefni að sameina fjölskyldur.

„Við erum með þrjú öðru megin og þrjú hinu megin og ég ætla ekki einu sinni að telja hvað eru margir barnsforeldrar. Við erum extrím útgáfan af íslensku ekki kjarnafjölskyldunni. Þorleifur sá eiginlega um þessa sameiningu. Hann tók þá ákvörðun að ef við ætluðum að leyfa börnunum að ráða því hvernig þetta allt saman fer fram yrði þetta bara erfiðara. Hann leigði bara risastóran bíl og við fórum með öll börnin saman í ferðalag í bústað. Við sögðum bara við þau að við værum vinir og værum að fara byrja saman, velkomin í fjölskylduna,“ segir Andrea og hlær. Ferðalagið gekk upp og niður.

„Ég held að þau hafi fundið ákveðið öryggi í því. Við sögðum bara við þau að við elskuðum hvort annað og við elskum ykkur og núna erum við saman í þessu,“ segir Andrea en börnin eru frá sex mánaða aldri til 15 ára.

Fyrir stuttu komu þau heim frá Maui.

„Við kynntumst á Tinder og þetta átti nú bara að verða smá kossaflens. Þetta átti ekki að verða svona en það er einhver æðri máttur sem steig inn í. Í þessari fyrstu kossaflensviku kom það í ljós að við hefðum bæði áhuga á því að stunda jóga og okkur  langaði einhvern daginn að verða jógakennarar. Svo var allt í einu komin upp sú staða í okkar lífi hvort okkur langaði að vera í 9-5 vinnu og gera eitthvað með börnunum á kvöldin og um helgar eða langar okkur að búa til líf þar sem við getum leyft þessum börnum að vera svolítið með okkur. Ég sá einhverja auglýsingu á Facebook um jógakennaranám á Maui.“

Andrea ákvað að gamni að bera hugmyndina upp fyrir Þorleifi sem tók vel í þá hugmynd og því næst spurði Andrea móður sína hvort hún væri til í að koma með þeim út og gæta barnanna á meðan þau væri í skólanum, en móðir Andreu ákvað þess í stað að flytja heim til þeirra á meðan og gæta barnanna á meðan Andrea og Þorleifur færu út í námið.

„Við áttum smá varasjóð sem átti ekki að fara í þetta en við létum bara okkar eigið rassgat ganga fyrir í þessum málum. Ég var að tala um þetta við mömmu og setningin sem gerði útslagið var að hún sagði við mig, ég get aðstoðað ykkur núna en hver veit hvað verður eftir ár,“ segir Andrea en þau fóru í þriggja vikna jóganám.

Það má segja að ferðin hafi verið býsna ævintýraleg en Andrea og Þorleifur notuðu tímann vel til þess að skoða eyjuna og leigðu meðal annars húsbíl sem þau keyrðu um, stoppuðu á fallegum ströndum og gistu bílnum og segir Andrea það hafa verið draumi líkast.

„Við vorum ástfanginn af lífinu og tilverunni og að hvort öðru. Það er enginn betri tími heldur en núna til þess að láta drauma sína rætast,“ segir Andrea en hér að neðan má sjá innslagið.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×