Innlent

Icelandair segir nýjar vélar sínar öruggar þrátt fyrir tvö mannskæð flugslys véla af sömu gerð

Jóhann K. Jóhannsson, Telma Tómasson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort Boeing 737-MAX 8 flugvélar Icelandair verði kyrrsettar eftir hörmulegt flugslys flugvélar sömu gerðar í Eþíópíu í gær. Flugritar vélarinnar eru fundnir og vonast er til þess að þeir varpi ljósi á orsakir slyssins. Samgönguyfirvöld hér á landi fylgjast náið með gangi mála. Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair segir vélarnar fullkomlega öruggar og að íslenskir flugfarþegar hafi ekkert að óttast.

Tæplega 350 manns hafa farist í tveimur flugslysum á tæpu hálfu ári þar sem Boeing 737-MAX 8 vélar koma við sögu.

Í lok október á síðasta ári fórst flugvél frá flugfélaginu Lion Air með 189 manns um borð á leið sinni frá Indónesíu og í gær fórst flugvél Ethiopian Airlines með 157 um borð, á leið sinni frá Addis Ababa. Samband við flugvélina í gær rofnaði eftir einungis sex mínútur eftir að hún tók á loft en líkindi eru talin með flugslysi Lion Air, í október í fyrra, þar sem sú flugvél var einnig var í flugtaki þegar slysið varð.

Margir þeirra sem voru um borð í eþíópísku flugvélinni í gær voru á leiðinni á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kenya. Flugritar flugvélarinnar fundust í morgun og er vonast til að gögn úr þeim muni varpa ljósi á hvers vegna flugvélin hrapaði.

Fréttastofan fjallaði ítarlega um flugslys Lion Air á síðasta ári og ræddi meðal annars við þjálfunarstjóra vélanna hjá Icelandair, sem er með þrjár slíkar Boeing 737-MAX 8 í flota sínum. Fjórða vélin, 737-MAX 9, er í standsetningu hjá flugfélaginu í Keflavík.

Vél af gerðinni Boein 737-MAX. Myndin tengist fréttinni ekki beint.Drew Angerer/Getty
Eftir slysið í Indónesíu í október var talið að flugvél Lion Air hafi ofrisið vegna mistaka flugmanna og áréttaði framleiðandi vélanna að fylgja eftir öllum verklagsreglum í handbókum og leiðbeiningum.

Kínversk og Indversks flugmálayfirvöld, auk flugfélaganna Ethiopian Airlines og Cayman Airways kyrrsett allar flugvélar þessarar tegundar. Kyrrsetningarnar ná til um 100 flugvéla sem er um þriðjungur þeirra sem eru í notkun af þessari nýjustu tegund Boeing flugvélaframleiðandans.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um kyrrsetningu í Bandaríkjunum og Evrópu en samgönguyfirvöld, meðal annars hér á landi, fylgjast náið með rannsókn málsins.

Icelandair ekki ákveðið að kyrrsetja sínar vélar

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, segist skilja vel hvers vegna fólk hafi kunni að hafa áhyggjur þegar tvö keimlík flugslys eigi sér stað með stuttu millibili, þar sem glænýjar flugvélar af sömu tegund eigi í hlut. Icelandair heldur úti þremur Boeing 737-MAX vélum í flota sínum.

„Það er ekkert annað hægt að segja heldur en það að við reynum að útskýra fyrir fólki hvernig ástatt er. Hverjar okkar öryggiskröfur eru, hvernig við erum að fara eftir okkar ítrustu öryggiskröfum og hvernig við setjum öryggið alltaf í fyrirrúm.  Við reynum að skýra aðstæður fyrir fólki sem hringir inn. Það hefur töluvert verið haft samband, bæði í síma sem og á samfélagsmiðlum. Sem eðlilegt er. Við náum yfirleitt að koma sem betur fer til skila hvernig í pottinn er búið,“ sagði Jens í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 í dag.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.Stöð2
Hann segir jafnframt að vel gæti komið til þess að flugfélagið muni sjálft hafa frumkvæði að kyrrsetningu véla sinna. Það yrði þó aðeins gert í samráði við flugmálayfirvöld í Evrópu og Ameríku, auk annarra flugfélaga sem haldi úti sömu vélum. Það eru félög á borð við American Airlines, Southwest og Norwegian. „Við myndum í raun og veru yfirleitt taka svoleiðis ákvörðun í samráði við slíka aðila og á sömu forsendum. En það þyrftu þá að liggja fyrir einhverskonar upplýsingar sem myndu knýja okkur til þess.“

Jens segir þá að miðað við upplýsingar sem liggi fyrir um fyrra flugslysið, þar sem vél Lion Air hrapaði og 189 manns fórust, bendi margt til þess að þeir verkferlar og viðhaldsstaðlar sem Icelandair vinnur eftir hefðu komið í veg fyrir það slys.

„Þar af leiðandi hafi ekki verið ástæða til þess að kyrrsetja vélarnar strax eftir það. Síðan bendir ýmislegt til þess að þrátt fyrir að þau [slysin] séu keimlík þá eigi þau ekki allt sameiginlegt og það getur vel verið að það séu allt aðrar orsakir fyrir þessu.“

Segir vélarnar öruggar

Jens segir jafnframt að enginn ætti að þurfa að hafa áhyggjur af því að fljúga með hinum nýju vélum Icelandair.

„Við erum búin að vera í flugrekstri í 80 ár og höfum alltaf sett öryggið á oddinn og við myndum aldrei tefla því orðspori okkar í tvísýnu og við getum sagt með fullri vissu að það eiga allir að geta flogið með þessum vélum.“


Tengdar fréttir

Kínverjar kyrrsetja Boeing 737 Max 8

Kínversk flugmálayfirvöld hafa ákveðið kyrrsetja Boeing 737 Max 8 þotur kínverskra flugfélaga, eftir hið mannskæða flugslys sem varð í Eþíópíu um helgina.

Farþegar Icelandair hringja inn vegna slyssins

Þrjár slíkar þotur eru í íslenska flugflotanum og segir framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Icelandair ekkert benda til þess að Icelandair muni kyrrsetja sínar vélar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×