Viðskipti innlent

Hrun hjá Icelandair í Kauphöllinni í morgunsárið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Boeing 737 Max vél Icelandair.
Boeing 737 Max vél Icelandair. Icelandair
Gengi bréfa Icelandair í Kauphöllinni hefur lækkað um tíu prósent í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Viðskipti með bréf í félaginu nema 81 milljón króna það sem af er dagsins. Hrunið má vafalítið tengja flugslysinu í Eþíópíu á sunnudag þar sem 157 fórust og tíðindum af mögulega auknu framlagi Indigo Partners í rekstur WOW air.

Um var að ræða flugvél eþíópíska flugfélagsins Ethiopian Airlines, ET302, sem var á leið frá Addis Ababa til Naíróbí, höfuðborgar Kenía. Hrapaði hún skömmu eftir flugtak. Sams konar flugslys varð í október yfir Jakaarta í Indónesíu, tólf mínútum eftir flugtak.

Flugvélin var af gerðinni Boeing 737 Max en Icelandair gerir út þrjár svoleiðis þotur og hefur kauprétt að fleiri vélum. Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, segir í Fréttablaðinu í dag að ótímabært sé að tengja slysin tvö saman. Rúmlega 300 vélar sem þessar séu í umferð á degi hverjum um allan heim. Ekkert bendi til að slysið í gær hafi orðið vegna vélarbilunar.

Þá kom einnig fram á laugardaginn að bandaríski fjárfestingasjóðurinn Indigo Partners væri tilbúinn að hækka framlag sitt inn í rekstur WOW air úr 75 milljónum dollara í 90 milljónir dollara.

Financial Times greinir frá því að bréf í flugvélaframleiðandanum Boeing hafi fallið um rúm tíu prósent í New York í morgun og tæp átta prósent í Þýskalandi. Segir að stefni í versta dag Boeing í Kauphöllinni síðan 11. september 2001 þegar hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á Tvíburaturnana í New York.


Tengdar fréttir

Kínverjar kyrrsetja Boeing 737 Max 8

Kínversk flugmálayfirvöld hafa ákveðið kyrrsetja Boeing 737 Max 8 þotur kínverskra flugfélaga, eftir hið mannskæða flugslys sem varð í Eþíópíu um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×