Innlent

Herjólfur í ólgusjó: „Verð sjóveik af því að horfa á þetta myndband“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á myndbandinu má sjá Herjólf veltast um í fjórar mínútur.
Á myndbandinu má sjá Herjólf veltast um í fjórar mínútur. Hólmgeir Austfjörð

Óhætt er að segja að myndband sem stýrimaður búsettur í Vestmannaeyjum birti á Facebook í dag af Herjólfi að koma inn í höfnina á Heimaey hafi vakið athygli og rifjað upp eftirminnilegar ferðir með ferjunni í gegnum árin.

„Verð sjóveik af því að horfa á þetta myndband“ segir kona nokkur sem er ein um hundrað sem hafa deilt myndbandi Hólmgeirs Austfjörð á Facebook. Þar má sjá Herjólf veltast um í fjórar mínútur. Langflestir sem deila myndbandinu virðast prísa sig sæla að vera ekki um borð. Um tíu þúsund manns hafa séð myndbandið þegar þetta er skrifað.

Um er að ræða fyrri ferð Herjólfs frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja í dag. Síðari ferðin til og frá Þorlákshöfn var felld niður vegna veðurs.

„Mig langar alltaf um borð þegar ég sé svona myndir,“ segir Illugi Jökulsson rithöfundur og gæti verið undantekningin sem sannar regluna. Þó má ekki útiloka þann möguleika að um kaldhæðni sé að ræða hjá Illuga.

Appelsínugul viðvörun hefur verið á Suðurlandi seinni part dags í dag og stendur til hádegis á morgun samkvæmt upplýsingum á Veðurstofu Íslands. Var Þjóðvegi 1 var lokað milli Hvolsvallar og Víkur seinni partinn en reiknað er með að opna hann þegar líður á þriðjudagsmorgun.

Þá var veginum milli Lómagnúps og Jökulsárlóns lokað í dag en reiknað er með að opna fyrir umferð um klukkan sjö í fyrramálið.

Herjólfur í vænni byltu síðdegis í dag.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.