Innlent

Fyrsti íslenski álbíllinn orðinn ökufær

Andri Eysteinsson og Stefán Ó. Jónsson skrifa
Fyrsti íslenski álbíllinn sem smíðaður var frá grunni hér á landi er orðinn ökufær og gefst Íslendingum færi á að skoða bifreiðina á morgun. Til stendur að framleiða fleiri eintök af jeppanum, sem fengið hefur nafnið Ísar, enda er nú þegar búið að selja fimm eintök og áhuginn enn meiri á þessum létta álbíl.

Á verkstæði í Hafnarfirði er hópur bifreiðasmiða að leggja lokahönd á þrælmerkilega bifreið, ekki aðeins er þetta fyrsti götuskráði ofurjeppinn, heldur er hann nær alfarið úr íslensku áli

„Nú erum við hérna með ökuhæfa frumgerð að fyrsta sérhannaði álbílnum á Íslandi. Kostnaðurinn við þetta allt saman er hingað til brot af því sem nokkur hefði trúað. Nú erum við búnir að fara í nokkra bíltúra, prívat fyrir fjárfesta og hann virkar,“ sagði Ari Arnórsson framkvæmdastjóri.

Bíllinn er alls rúmlega tveir og hálfur metri á breidd, fimm og sjötíu að breidd með sæti fyrir allt að 20 manns. Engu að síður vegur bíllinn innan við þrjú tonn. Bú þegar er búið að selja fimm slíka bíla og ljóst er að eftirspurnin er enn meiri.

„Það er búinn að vera mikill áhugi, bæði hérlendis og erlendis. Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum erlendis frá, hvenær þetta væri tilbúið. Vonandi sem fyrst,“ sagði Guðmundur Höskuldsson rekstrarstjóri.

Bíllinn verður til sýnis fyrir utan Háskóla Íslands, á morgun þriðjudag, klukkan 15:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×