Lífið

Sá sem lék gítarleikarann í School of Rock handtekinn fyrir að stela gítörum

Birgir Olgeirsson skrifar
Jack Black lék aðalhlutverkið í School of Rock en hér er hann í myndinni ásamt Joey Gaydos Jr.
Jack Black lék aðalhlutverkið í School of Rock en hér er hann í myndinni ásamt Joey Gaydos Jr.
Bandaríkjamaðurinn Joey Gaydos Jr., sem lék gítarleikarann unga Zack „Zack Attack“ Mooneyham í kvikmyndinni School of Rock, var handtekinn af lögreglu í Flórída fyrir að stela gítörum og magnara á fimm vikna tímabili.

NBC News greinir frá þessu en Gaydos, sem er 28 ára í dag, á yfir höfði sér ákærur fyrir þjófnað í bæjunum Sarasota, Venice og North Port.

31. janúar síðastliðinn leyfði eigandi hljóðfærabúðar í Sarasota Gaydos að spila á Les Paul Epiphone Prophecy, verðmetinn á átta hundruð dollara eða 96 þúsund íslenskar krónur. Eftir nokkrar mínútur hljóp Gaydos úr búðinni með gítarinn í fanginu án þess að borga fyrir hann.

Upptaka úr öryggismyndavél sýnir Gaydos rölta um hljóðfærabúð í Venice með gítar í hönd áður en hann stal honum.

Lögreglan í Venice birti myndband af þjófnaðinum á Twitter-síðu sinni.

NBC News segja Gaydos hafa stolið 1.900 dollara gítar úr hljóðfærabúðinni Sam Ash Music Store 11. febrúar síðastliðinn. Þegar hann var handtekinn á hann að hafa sagt lögreglumönnunum að það hefði verið nauðsynlegt að handtaka hann. Hann kenndi fíkniefnaávana um þjófnaðinn.

School of Rock er eina myndin sem hann hefur leikið samkvæmt IMDB-síðunni hans en þar kemur fram að hann hafi byrjað að spila á gítar þegar hann var þriggja ára gamall.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×