Innlent

Átta karlar og ein kona í stækkuðum þingflokki

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingflokkur Miðflokksins kom saman til fundar í dag í fyrsta skipti eftir fjölgun í þingmannaliði hans í dag. Þeir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason sem kjörnir voru á þing fyrir Flokk fólksins í október 2017 gengu formlega til liðs við flokkinn á föstudag eftir að hafa verið utan flokka frá því í lok nóvember þegar þeim var vísað úr Flokki fólksins.

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis las tilkynningu um stækkun þingflokks Miðflokksins upp í byrjun þingfundar í dag.

Miðflokkurinn er nú stærstur þingflokka stjórnarandstöðunnar með níu þingmenn, átta karla og eina konu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins telur eðlilegt að skipað verði á ný í nefndir þingsins eftir breytinguna en formleg ósk um það hefur ekki komið fram á Alþingi.

Til að samkomulag stjórnar- og stjórnarandstöðu um skipan í nefndir þingsins frá því ný stjórn var mynduð verði tekið upp, þurfa þrettán þingmenn annarra flokka að styðja slíka tillögu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.