Innlent

Björguðu lífi samstarfskonu sinnar: „Ég væri ekki hér ef ekki væri fyrir þær“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ragnhildur Gunnarsdóttir, Sesselja Kristinsdóttir, Hulda Björg Jónasdóttir og Katazyna Jakubowska ásamt Árna Gunnarssyni, formanni Rauða krossins í Reykjavík.
Ragnhildur Gunnarsdóttir, Sesselja Kristinsdóttir, Hulda Björg Jónasdóttir og Katazyna Jakubowska ásamt Árna Gunnarssyni, formanni Rauða krossins í Reykjavík. Vísir/Sigurjón

Kona sem fór í hjartastopp á líf sitt að launa þremur samstarfskonum sínum sem björguðu lífi hennar. Tvísýnt var í nokkra daga hvort hún myndi lifa af en Rauði krossinn heiðraði samstarfskonur hennar í dag fyrir skyndihjálparafrek. 

Sesselja Kristinsdóttir er 28 ára starfsmaður leikskólans Vinagarðs. Hún hefur alltaf verið hraust svo það var án nokkurs fyrirvara sem hún fór skyndilega í hjartastopp í apríl í fyrra. „Ég bara fer í hjartastopp hérna á kaffistofunni,“ segir Sesselja í samtali við fréttastofu.

Samstarfskonur hennar þær Katarzyna Jakubowska, Ragnhildur Gunnarsdóttir og Hulda Björg Jónasdóttir, brugðust hárrétt við en án þess að hika byrjuðu þær hjartahnoð á meðan ein þeirra hringdi eftir aðstoð. Eftir nokkra tvísýna daga á gjörgæslu kom Sesselja til baka og þykir ljóst að snarræði samstarfskvenna hennar var það sem réði úrslitum. Hún náði það fljótt aftur heilsu að hún gat tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst.

„Ég væri ekki hér ef ekki væri fyrir þær,“ segir Sesselja. 112 dagurinn er í dag, 11. febrúar, og að því tilefni veitti Rauði krossinn í Reykjavík samstarfskonum Sesselju, viðurkenningu fyrir afrekið. Þær hvetja alla til að sækja skyndihjálparnámskeið. „Það er nauðsynlegt að fara á svona námskeið, ég myndi segja það og það skipti sköpum hvernig við brugðumst við, að hafa lært þetta,“ segir Hulda Gunnarsdóttir, starfsmaður leikskólans Vinagarðs.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.