Innlent

Segir þá niðurstöðu að falla frá friðlýsingu Víkurgarðs dapurlega

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Deilur hafa staðið í þónokkurn tíma um byggingu hótels á Landsímareitnum í miðbæ Reykjavíkur.
Deilur hafa staðið í þónokkurn tíma um byggingu hótels á Landsímareitnum í miðbæ Reykjavíkur.

Helgi Þorláksson, einn af varðmönnum Víkurgarðs, segir þá niðurstöðu að falla frá friðlýsingu alls garðsins dapurlega. Hann bendir á að ólöglegt sé að byggja á kirkjugarði. Hópurinn mun hittast í dag og ákveða frekari aðgerðir.

Minjastofnun Íslands hefur dregið friðlýsingartillögu sína um stækkun á friðlýstu svæði Víkurgarðs til baka. Deilur hafa staðið um byggingu hótels og staðsetningu á inngangi þess á Landsímareitnum. Lindarvatn ehf, eigandi fasteigna á reitnum, mun breyta teikningunni þannig að inngangur sem fyrirhugaður var gegnt Víkurgarði verði færður norðar.

Helgi er í hópi þeirra sem standa vill vörð um garðinn. Í hans huga hafi krafan aldrei staðið um að breyta inngangi, heldur friða garðinn í heild.

„Mér finnst þetta ömurlegt að það eigi að reisa þarna geisilega stórt og mikið hótel á mjög viðkvæmu svæði.  Þetta er alltof stór bygging. Mér finnst hún til dæmis móðgun við Alþingi og friðhelgi Alþingis. Alþingismenn ætla einmitt að ræða þingsályktunartillögu um málið í dag og mér finnst að þeir ættu að taka fast á þessu máli. Það hafa verið hugmyndir um það að taka lóðina eignarnámi. Það er segja lóðina sem reisa á hótelið á. Ég styð það algjörlega,“ segir hann.

Hann áttar sig ekki á af hverju gerður er munur á austur og vestur hluta garðsins. Friðlýsa eigi garðinn í heild.

„Auk þess held ég að þetta sé ólöglegt því samkvæmt kirkjugarðalögum má ekki reisa mannvirki í aflögðum kirkjugarði. Í aflögðum kirkjugarði má aðeins vera almenningsgarður. Það er þó hægt að veita undanþágu frá þessu það má reisa mannvirki ef ráðherra leyfir, en ráðherra getur ekki tekið ákvörðun nema leita til kirkjugarðaráðs og þetta hefur ekkert verið gert. Borgin hefur aldrei gert þetta,“ segir Helgi.
 
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.