Innlent

Mosfelli á Hellu lokað eftir 54 ára starfsemi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Einar og Hjördís sem hafa staðið vaktina saman í Mosfelli á Hellu í fimmtíu og fjögur ár.
Einar og Hjördís sem hafa staðið vaktina saman í Mosfelli á Hellu í fimmtíu og fjögur ár. Magnús Hlynur
Versluninni Mosfelli á Hellu verður lokað á næstu dögum en eigandinn sem er komin á níræðis aldur hefur rekið hana í fimmtíu og fjögur ár. Starfsstúlka verslunarinnar hefur einnig unnið í versluninni í öll þessi ár.

Verslunin Mosfell er til húsa við Rangárbakka 7 á Hellu. Þar hefur verið selt fjölbreytt úrval af vörum, ekki síst gjafavörum en nú eru hillurnar smátt og smátt að tæmast á útsölu því Einar Kristinsson, kaupmaður ætlar að skella í lás á næstu dögum og loka versluninni fyrir fullt og allt eftir 54 ára starfsemi

En hverjir hafa verið helstu viðskiptavinir Mosfells í gegnum árin?

„Það eru bara Rangæingar í heild í gegnum tíðina. Við erum ekki með neitt fyrir ferðamenn en þeir rekast náttúrulega hérna inn en það er takmarkað hvað þeir kaupa“, segir Einar Kristinsson, kaupmaður og eigandi Mosfells um leið og hann bætir því við að það sé eins og hann hafi byrjað í gær þrátt fyrir árin fimmtíu og fjögur.

En hefur verslunin breyst mikið á þessum 54 árum?

„Nei, nei, ekki þannig sem hægt er að tala um. Þetta náttúrulega þarf að breytast en það hefur ekki gert það og þess vegna erum við kannski að hætta, það þarf að koma inn með eitthvað fyrir ferðamennina og einhverjar nýjungar, vera sýnilegur á netinu, við erum bara eins og þegar við byrjuðum fyrir fimmtíu og fjórum árum, höfum engu breytt, við kunnum varla að opna tölvu“, segir Einar.

Mosfell er með rýmingarsölu þessa dagana áður en skellt verður í lás.Magnús Hlynur
Engin starfsmannavelta hefur verið hjá Einar í öll þessi ár því Hjördís Guðnadóttir hefur verið vakin og sofin yfir versluninni með Einari því hún hefur starfað með honum í öll þessi fimmtíu og fjögur ár. 

Unnur segir að ástæðuna fyrir lokun verslunarinnar megi m.a. rekja til þess að fólk er ekki nógu duglegt að versla í heimabyggð enda vilji engin kaupa Mosfell þrátt fyrir að verslunin hafi verið auglýst til sölu.

„Mér finnst að fólk fari annað og kaupi, ekki á staðnum. Það er bara alveg ómögulegt, fólk er ekki að versla í heimabyggð, sem er ekki gott“, segir Hjördís
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.