Innlent

Segja Báru hafa ákveðið dulargervi sitt áður en hún mætti á Klaustur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þingmenn Miðflokksins, þau Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason, náðust öll á Klaustursupptökunum.
Þingmenn Miðflokksins, þau Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason, náðust öll á Klaustursupptökunum. Mynd/Samsett
Fjórir þingmenn Miðflokksins halda því fram að Bára Halldórsdóttir hafi brugðið sér í dulargervi erlends ferðamanns þegar hún tók upp samtal þeirra á barnum Klaustri þann 20. nóvember. Þá hafi hún ákveðið dulargervið áður en hún mætti á staðinn en það renni m.a. stoðum undir styrkan ásetning hennar til upptökunnar.

Þingmennirnir ítreka jafnframt kröfu sína um að Bára verði sektuð og fara fram á að Persónuvernd afli myndefnis frá Klaustri umrætt kvöld. Þetta kemur fram í bréfi sem Reimar Pétursson lögmaður þingmannanna hefur sent Persónuvernd og fréttastofa hefur undir höndum.

Þingmennirnir fjórir sem um ræðir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, viðhöfðu ósæmileg ummæli um ýmsa samstarfsmenn sína og aðra í Klaustursupptökunum svokölluðu. Kröfu þingmannanna um gagnaöflun og vitnaleiðslur vegna hugsanlegrar málssóknar gegn Báru var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar. Sá úrskurður var svo staðfestur í Landsrétti. Í kjölfarið leituðu þingmennirnir til Persónuverndar.

Vilja myndefni og stjórnvaldssekt

Í bréfinu til Persónuverndar, sem lögmaður Miðflokksmanna sendir fyrir hönd umbjóðenda sinna, kemur m.a. fram að þingmennirnir óski eftir því að Persónuvernd afli myndefnis sem sýnir mannaferðir fyrir utan Klaustur og hótelið Kvosina frá klukkan 18:30 til 01:00 umrætt kvöld þann 20. nóvember.

Þá er þess óskað að þingmennirnir fjórir fái aðgang að myndefninu, sem þeir telja sig þurfa sökum „dómsmáls sem þeir íhuga að höfða“ og einnig vegna meðferðar málsins hjá Persónuvernd.

Þingmennirnir gera enn fremur kröfu um að Persónuvernd beiti valdi sínu til að leggja stjórnvaldssekt á Báru.

„Álagning stjórnvaldssekta er liður í virkri réttarvernd fyrir ólögmætum inngripum í friðhelgi einkalífs. Má því ætla að Persónuvernd sé skylt að leggja þær á nema álagning þeirra teldist „ótvírætt brot“ á rétti til tjáningarfrelsis skv. stjórnarskrá,“ segir í bréfinu.

 

Myndefni geti varpað ljósi á „samverknað“

Þingmennirnir byggja mál sitt einnig á því að frásögn Báru sé afar ótrúverðug og einkennist af „ýmsum þversögnum“. Þá vilji þeir skoða sérstaklega hvort Bára hafi átt sér samverkamenn en frásögn hennar gefi skýrt til kynna hversu „einbeitt hún gekk til verks“.

„Mun nær sé að afla fyrst myndefnis sem geti varpað nánara ljósi á atburðarásina og rannsaka svo til hlítar hversu einbeitt hún gekk til aðgerða sinna og, eftir atvikum, hvort um samverknað hafi verið að ræða.“

Bára Halldórsdóttir, uppljóstrarinn á Klaustur Bar.Vísir/Arnar
 

Einnig er því haldið fram að Bára hafi viljað forðast að eftir henni yrði tekið inni á Klaustri, sérstaklega með því að sitja eins langt frá þingmönnunum og henni var framast unnt. Þá hafi hún viljað viðhalda og styrkja þær væntingar Miðflokksmanna að þeir ræddu saman í einrúmi inni á staðnum.

Þá megi álykta að Bára hafi ákveðið að taka samtalið upp áður en hún kom á Klaustur, þar eð skýringar hennar um að efni samtalsins hafi kveikt hjá henni ásetning til upptökunnar virðist „lítt trúverðugar“.

Hafi ákveðið fyrir fram að dulbúast sem erlendur ferðamaður

Miðflokksmenn halda því jafnframt fram að Bára virðist hafa „tekið sér gervi erlends ferðamanns“ til að forðast athygli þingmannanna. Vísa þeir til þess að hún hafi haft ferðamannabæklinga meðferðis þegar hún mætti á Klaustur og þóst lesa þá til að viðhalda leynd um aðgerðir sínar. Eins hafi hún falið síma sinn með skjölum.

Þetta vilja Miðflokksmenn meina að gefi til kynna að Bára hafi verið búin að ákveða umrætt dulargervi áður en hún kom á staðinn. Því standist það illa skoðun að atburðarásin þetta kvöld hafi orðið fyrir tilviljun.

 

Myndin sanni ásetning eða tilvist vitorðsmanns

Þá er sérstaklega farið yfir mynd sem tekin var af Miðflokksmönnum á Klaustri að kvöldi 20. nóvember. Vísað er til þess að Bára hefur mótmælt því að hafa tekið myndina en þingmennirnir telja þó ljóst að myndin sé ekki tekin af þeim fyrir tilviljun.

Draga þeir þá ályktun að hafi Bára tekið myndina strax í upphafi kvölds áður en hún kom inn á staðinn staðfesti það „ásetning hennar til aðgerðanna frá upphafi“. Komi hins vegar í ljós að annar aðili hafi tekið myndina gefi slíkt „sterklega til kynna“ að Bára hafi átt sér vitorðsmann sem tók þátt í „aðgerðinni“.

Fréttin hefur verið uppfærð með ítarlegri útskýringum á niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar vegna kröfu Miðflokksmanna um gagnaöflun og vitnaleiðslur.


Tengdar fréttir

Senda formlegt erindi til siðanefndar vegna Klaustursmálsins

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem skipuð voru sem auka varaforsetar Alþingis til að fjalla um Klaustursmálið, senda nú í kvöld formlegt erindi til siðanefndar Alþingis um að nefndin taki málið til skoðunar. Þetta staðfestir Steinunn Þóra í samtali við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×