„Við ræddum á þessum fundi ýmis atriði tengd kröfugerðum og mögulegu svigrúmi atvinnurekenda til að fara í launahækkanir á næstunni," segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Hvernig gekk?
„Fundurinn stóð yfir í tæpar tvær klukkustundir og það er búið að boða til fundar í næstu viku, sem er góðs viti."
Næsti fundur verður á mánudag og viðræðum hefur því alls ekki verið slitið, líkt og formaður VR sagðist ætla að gera, ef fundur dagsins gengi ekki að óskum.

Ríkissáttasemjari hefur lagt mikla áherslu á að viðsemjendur gefi ekkert upp um þær launahækkanir sem eru í boði en ljóst er að enn ber mikið á milli. Að sögn Ragnars gætu stjórnvöld mögulega brúað bilið með kerfisbreytingum.
„Það er alveg ljóst að stjórnvöld munu þurfa að koma að lausn deilunnar. Það liggur alveg fyrir. Og ábyrgð bæði okkar í verkalýðshreyfingunni, Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda er gríðarlega mikil, til þess að hér verði ekki átök," segir Ragnar.
„Það ber ýmislegt á milli, það er alveg ljóst. Þeir eru með vissar hugmyndir varðandi vinnustaðabreytingar sem okkur hugnast ekki, og það nema síður sé," segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Samkvæmt heimildum fréttastofu felast þessar hugmyndir meðal annars í því að kaffitímar starfsfólks verði seldir. Vinnudagurinn yrði þannig styttur um 35 mínútur gegn því að fólk vinni kaffitímana. Þá felast einnig í þessu breytingar á vinnustundum þannig að heildarfjöldi stunda á launatímabilinu telur áður en yfirvinna kemur til. Ef starfsmaður vinnur þannig tíu tíma einn daginn, en sex tíma annan daginn fær hann ekki greidda yfirvinnu. Þá hefur einnig verið kynnt sú hugmynd að lengja dagvinnutímabilið til klukkan sex til sjö á kvöldin. Yfirvinna yrði því ekki greidd fyrr en eftir þann tíma.

„Ég ætla að vona það besta, en ég ætla svo sannarlega að búa mig undir það versta," segir Vilhjálmur Birgisson.
Eruð þið að þokast nær niðurstöðu?
„Ef við erum að þokast erum við að minnsta kosti að þokast afskaplega hægt," sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, eftir fundinn hjá ríkissáttasemjara í dag.