Innlent

Tryggvi Ólafsson látinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tryggvi Ólafsson.
Tryggvi Ólafsson. Mynd/Aðsend
Tryggvi Ólafsson listmálari lést í dag í faðmi fjölskyldunnar eftir erfið veikindi. Hann var í hópi þekktustu og virtustu myndlistarmanna þjóðarinnar.

Tryggvi fæddist í Neskaupstað 1. júní 1940. Hann lærði við Myndlista og handíðaskólann árin 1960-61 og síðan við Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn árin 1961-66. Tryggvi vann lengst af að list sinni í Danmörku þar sem hann bjó í rúm 40 ár. Hann sýndi víða um heim og snéri sér snemma að popplist þar sem hann nýtti sér efni og form bæði frá fortíð og nútíð.

Eftir alvarlegt slys 2007 gat Tryggvi ekki málað lengur og fluttist til Íslands með eftirlifandi eiginkonu sinni Gerði Sigurðardóttur, en þau giftu sig í Kaupmannahöfn árið 1962. Þau áttu þrjú börn þau Stíg, Gígju og Þránd.

Þó Tryggvi hafi ekki getað málað eftir slysið hélt hann áfram að vinna að list sinni og vann grafík fram á síðasta dag og var m.a. annars með tvær einkasýningar á grafík 2018.

Sem fyrr segir var Tryggvi í hópi þekktustu og virtustu myndlistarmanna þjóðarinnar og voru verk hans í eigu fjölmargra listasafna á Íslandi og erlendis og var stíll hans auðþekkjanlegur.

Tryggvi var riddari af Dannebrog, handhafi fálkaorðunnar og hlaut verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2018.


Tengdar fréttir

Með myndadellu frá því ég var krakki

Listmálarinn Tryggvi Ólafsson er upprunanum trúr og velur verkalýðsdaginn til þess að opna sýningu. Sú er í Galleríi Fold við Rauðarárstíg og nefnist Ný grafík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×