Innlent

Katrín lagði áherslu á afvopnunar- og loftslagsmál á NATO-fundinum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins funduðu í Lundúnum í dag. Forsætisráðherra segir að krafa Bandaríkjanna um aukin fjárframlög aðildarríkja hafi verið rædd, en sömuleiðis það sjónarmið að aukin dreifing fjárframlaga og stefnumótunar þurfi að haldast í hendur.

Aðdragandi fundarins einkenndist af togstreitu. Tyrkir höfðu gert kröfu um að hersveitir Kúrda í Sýrlandi yrðu skilgreindar hryðjuverkasamtök og Donald Trump Bandaríkjaforseti kallaði ummæli Frakklandsforseta, sem sagði NATO stríða við heilabilun, andstyggileg.

Þrátt fyrir þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem sótti fundinn, að hann hafi verið hinn rólegasti. Hún segir að fulltrúar aðildarríkja hafi farið yfir áherslur sínar en stóru umræðuefnin hafi verið þau sömu og á síðasta fundi.

Einna helst hafi verið rætt um þá kröfu Bandaríkjastjórnar um að ríki auki framlög sín til her- og varnarmála og til bandalagsins sjálfs. Þá segir forsætisráðherra að einnig hafi verið talað um þau sjónarmið að ef dreifa ætti fjármögnun jafnar væri rétt að dreifa ákvarðanatökunni.

Áherslur íslenskra stjórnvalda voru, að sögn forsætisráðherra, áhyggjur af því að afvopnunarsamningar séu að flosna upp, stefnuleysi í loftslagsmálum, málefni Norður-Atlantshafs og jafnréttismál.

Katrín átti einnig tvíhliða fund með Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, í dag. Þar ræddu þau meðal annars um stöðu jafnréttismála og áherslur komandi ríkisstjórnar Spánverjans.

Hann hafi einnig rætt sérstaklega um stöðu Katalóníu á Spáni, en sjálfsstjórnarhéraðið hefur logað í mótmælum undanfarin ár, sérstaklega eftir að leiðtogar sjálfstæðishreyfingarinnar fengu þunga fangelsisdóma í haust. Segir Katrín að ítarlega hafi verið farið yfir málið og áhyggjur íslenskra stjórnvalda af stöðunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.