„Þarna verður í boði sérvalin tónlist gegn D-vítamínskorti og skammdegisþunglyndi,“ segir Einar Stefánsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, en S.A.D. stendur fyrir „seasonal affective disorder“ eins og skammdegisþunglyndi kallast á ensku.
„Allir þessir listamenn tækla sorgina í tónlistinni sinni, hver á sinn einstaka hátt, og því fannst okkur nauðsynlegt að fá þau til að spila á festivali á þessum erfiða tíma,“ segir Einar aðspurður hvernig þau hafi valið listamenn á festivalið. Flóni er einn fyrsti rapparinn á Íslandi til að gefa út tónlist í neo-emo rappstílnum sem hefur orðið nokkuð stór vestanhafs á síðustu árum og verið gerður vinsæll af röppurum eins og lil uzi vert og Juice WRLD. Alvia er svakalega litríkur tónlistarmaður, bæði bókstaflega litrík í útliti en gerir líka einstaklega hressandi músík sem kætir. Cyber hefur bæði kafað í hrylling með plötunni Horror en líka í litríka fantasíu um fyrirtækjarekstur á plötunni Bizness. Elli Grill hefur aldrei ekki verið brosandi og bara röddin í honum gæti komið manni í gott skap og Ragga Holm gerir drífandi „bangera“ sem ætti að rífa flesta upp.