Tveir öflugir skjálftar mældust í norðanverðri Bárðarbungu fyrr í dag en annar þeirra er sá öflugasti frá goslokum.
Sá fyrri reið yfir klukkan 13:14 og var hann 4,1 að stærð en nokkrir minni skjálftar fylgdu í kjölfarið á næsta hálftímanum og voru tveir þeirra yfir þremur stigum.
Klukkan fimm mínútur yfir þrjú varð annar stærri skjálfti á svipuðu slóðum. Hann var 4,9 að stærð og fylgdu honum einnig nokkrir minni eftirskjálftar.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands kemur fram að þessi skjálfti hafi verið stærsti skjálfti í Bárðarbungu frá goslokum árið 2015 ásamt öðrum skjálfta sömu stærðar sem áttu sér stað 30. janúar í ár. Engin merki eru sjáanleg um gosóróa og er fylgst náið með framvindu mála.
