Innlent

Hársbreidd frá alvarlegu umferðarslysi undir Esjunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Telja má mikla mildi að ekki hafi orðið harkalegur árekstur í botni Kollafjarðar síðdegis í gær. Friðrik Helgi Friðriksson ók þá í átt að höfuðborgarsvæðinu þegar fólksbíll kom skyndilega stjórnlaus og skautaði um á veginum. Mbl.is greindi fyrst frá í morgun.

Friðrik segir í samtali við Vísi að hann hafi verið á leiðinni í bæinn þegar bíllinn birtist skyndilega.

„Ég sé að bíllinn kemur á móti mér og skautar yfir á rangan vegahelming,“ segir Friðrik Helgi. Sem betur fer fór bíllinn framhjá bíl Friðriks sem er með myndavél í framrúðunni sem tók atvikið upp. 

Friðrik Helgi segir bílinn hafa hafnað með afturendann í ruðningi úti í kanti og staðnæmst öfugur en þó á réttum vegahelmingi. Ótrúlegt en satt segist Friðrik Helgi ekki hafa orðið hræddur þegar bíllinn birtist.

„Nei, reyndar ekki. Maður sá hvað var að gerast og ég færði mig út í kant, fékk kannski aðeins í magann en svo hugsar maður ekkert um þetta.“

Hann segir tilefni til að birta myndbandið í tilefni umræðu um þennan vegakafla. Banaslys varð skammt frá í byrjun árs og hafa Akurnesingar krafist endurbóta á veginum.

Aftakaveður er á landinu í dag en fylgjast má með helstu tíðindum í Veðurvaktinni hér að neðan.





Fleiri fréttir

Sjá meira
×