ANF fréttastofan hefur greint frá því að Haukur hafi fallið í átökum í Afrinhéraði í Sýrlandi í febrúar síðastliðnum. Vísaði fréttastofan í yfirlýsingu frá YPG, her sýrlenskra Kúrda, sem Haukur barðist með.
Haukur er sagður hafa látist í loftárás tyrkneska hersins þann 24. febrúar síðastliðinn ásamt tveimur arabískum liðsfélögum.

Utanríkisráðuneytið sagðist í gær vera að kanna orðróm þess efnis að Haukur hefði fallið í stríðsátökum í Sýrlandi. Var reynt að afla staðfestingar í gegnum ræðismenn Íslands í Tyrklandi og alþjóðdeild embættis ríkislögreglustjóra.
Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði í samtali við Vísi í dag að utanríkisráðuneytið hefði engar staðfestingar fengið á fregnum sem hafa borist af Hauki ytra. Sagði Sveinn ráðuneytið vera með alla anga úti við að afla upplýsinga um mál Hauks.
Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, ritaði stutta grein á bloggsíðu sína fyrr í dag þar sem hún óskaði eftir upplýsingar um Hauk sem mögulega gætu varpað ljósi á mál sonar hennar.