Skattrannsóknarstjóri lagði í dag hald á gögn hjá starfsmannaleigunni Verkleigunni. RÚV greinir frá. Lögmaður fyrirtækisins segir að gögnin hafi verið haldlögð vegna gruns um vantalinn virðisaukaskatt.
Efling stéttarfélag var með mál Verkleigunnar til skoðunar á síðasta ári, þá vegna gruns um að brotið hefði verið á erlendu verkafólki með margvíslegum hætti. Starfsmenn hafi verið sviknir um laun, orlof og lífeyrissjóðsgreiðslur.
Tryggvi Agnarsson, lögmaður Verkleigunnar, sagði í samtali við RÚV í fyrra að málið snerist um fjársvik fyrrverandi rekstraraðila.
Starfsmannaleigan er starfrækt í Kópavogi. Í frétt RÚV segir að í húsnæðinu séu skrifstofur fyrirtækisins en einnig sé þar dvalarstaður erlendra verkamanna. Þeir séu flestir iðnaðarmenn frá Litáen og Póllandi.
Ekki náðist í Tryggva Agnarsson, lögmann Verkleigunnar, við vinnslu fréttarinnar.
