Lífið

Sjáðu fyrsta brotið úr söngleiknum Matthildur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Björgvin Franz Gíslason og Katrín Halldóra leika í verkinu.
Björgvin Franz Gíslason og Katrín Halldóra leika í verkinu.
Borgarleikhúsið frumsýnir í dag fyrsta brotið úr söngleiknum Matthildur á Facebook en þar má sjá flutning á laginu Er ég verð stór úr stórsýningunni sem verður frumsýnd á Stóra sviðinu í mars.

Matthildur er nýr söngleikur sem byggir á hinni rómuðu skáldsögu Roalds Dahl. Litla stúlkan Matthildur er óvenjulega gáfuð, tilfinninganæm og bókelsk og líklega þess vegna með sérlega ríkt ímyndunarafl.

Foreldrar hennar eru þó af öðru sauðahúsi, fáfróð og óhefluð, og skólastjórinn Karítas Mínherfa er hreinasta martröð. Matthildur lumar þó á ýmsum ráðum gegn heimsku fólksins og með styrk sínum og hugrekki tekst henni að vinna sér sess í veröldinni.  Þetta er fræg saga um litla stúlku sem þróar með sér ofurkrafta í baráttunni við ranglæti heimsins.

Með aðal hlutverk í verkinu fara þau Björgvin Franz Gíslason, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Arnar Dan Kristjánsson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Björn Stefánsson, Ebba Katrín Finnsdóttir og fleiri. Þær Erna Tómasdóttir, Ísabel Dís Sheehan og Salka Ýr Ómarsdóttir skipta með sér hlutverki Matthildar.

Hér að neðan má sjá leikarahópinn flytja lagið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×