Innlent

Vigdís ætlar ekki að segja samflokksmönnum sínum fyrir verkum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins tjáði sig í fyrsta sinn um ummæli samflokksmanna sinna úr Klaustursupptökunum í dag.
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins tjáði sig í fyrsta sinn um ummæli samflokksmanna sinna úr Klaustursupptökunum í dag. Vísir/vilhelm

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík segist sammála yfirlýsingu frá bæjarfulltrúum flokksins í Suðurkjördæmi sem send var út í dag vegna Klaustursupptökunnar. Vigdís hyggst þó ekki segja þingmönnum eða þingflokk fyrir verkum varðandi það hvernig bregðast eigi við upptökunum.

Bæjarfulltrúarnir þrír, þau Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir og Tómas Ellert Tómasson, sögðust í yfirlýsingu sinni vona að þingflokkur Miðflokksins komist að „ásættanlegri niðurstöðu á fundi sínum í dag varðandi áframhaldandi þingmennsku þeirra þingmanna sem létu niðrandi ummæli falla um samborgara og samstarfsfólk sitt á Klaustur fyrr í mánuðinum.

Vigdís tjáði sig um Klaustursupptökurnar í fyrsta sinn á Facebook-síðu sinni síðdegis í dag og sagði orðræðuna sem Miðflokksmennirnir viðhöfðu óverjandi.

„Ég er sammála þessari yfirlýsingu bæjarfulltrúa Miðflokksins í Suðurkjördæmi og hef við þetta að bæta að þetta er óverjandi orðræða á köflum sem ég gagnrýni harðlega,“ segir í færslunni.

„Þingmenn og þingflokkur verða að bregðast við - en ég ætla ekki að segja þeim fyrir verkum - frekar en að þeir geti sagt mér fyrir verkum.“

Hólmfríður Þórisdóttir, ritari þingflokks Miðflokksins, sagði í samtali við Vísi í dag að hún vissi ekki betur en að þingflokkur Miðflokksins myndi funda áður en dagur er úti. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvar eða hvenær fundurinn verður haldinn. Formaður þingflokksins er Gunnar Bragi Sveinsson og varaformaður Bergþór Ólason en þeir eru á meðal fjögurra þingmanna Miðflokksins sem ræddu saman á Klaustur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.