Innlent

Bein útsending: Kvöldfréttir Stöðvar 2

Birgir Olgeirsson skrifar
Við verðum í beinni útsendingu frá Helguvíkurhöfn í kvöldfréttum Stöðar 2. Fjórtán manna áhöfn sementsflutningaskipsins Fjordvik og hafnsögumanni var bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar í nótt eftir að skipið rak upp í utanverðan hafnargarð Helguvíkurhafnar. Engan sakaði en hundrað tonn af olíu og sextán hundruð tonn af sementi eru í skipinu og hætta á að efnin fari í sjóinn. Lítið hefur verið hægt að aðhafast á vettvangi vegna veðurs.

Stjórn Sjómannafélags Íslands hefur ekki orðið við ákalli á annað hundrað manns sem hafa krafist fé­lags­fund­ar vegna þeirrar stöðu sem er komin upp í félaginu. Stjórn félagsins kemur saman eftir helgi þar sem skorið verður úr um lögmæti kröfunnar.

Við ræðum við heilbrigðisráðherra um langa biðlista í áfengis- og vímuefnameðferð. Starfshópur á að skila ráðherra tillögum að framtíðar fyrirkomulagi meðferðar fyrir ungmenni um miðjan næsta mánuð. SÁÁ kallar eftir fjárveitingu til þess að útrýma megi biðlistum á Vog en heilbrigðisráðherra segist ekki hafa eyrnamerkt aukið fjármagn í starfsemina.

Við vorum á flokksráðsfundi Miðflokksins á Akeyri í dag og ræðum við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins. Í ræðu sinni sakaði Sigmundur ríkisstjórnina um aumingjaskap og sagði hana aðeins vera til fyrir sjálfa sig.

Kosið verður til Bandaríkjaþings á þriðjudaginn og lokasprettur kosningabaráttunnar er hafinn. Eyðsla í kosningaauglýsingar hefur slegið öll met en frambjóðendur reyna ýmislegt til að vekja athygli kjósenda.

Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan hálf sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×