Innlent

Djúp lægð við stjórnvölinn næstu daga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gular viðvaranir eru í gildi fyrir nánast allt landið vegna austan og norðaustan storms og er vegfarendum bent á að fara varlega þar sem hviður geta farið upp í 25 til 35 metra á sekúndu þegar mest lætur.
Gular viðvaranir eru í gildi fyrir nánast allt landið vegna austan og norðaustan storms og er vegfarendum bent á að fara varlega þar sem hviður geta farið upp í 25 til 35 metra á sekúndu þegar mest lætur. vísir/hanna

Djúp lægð sem er suðvestur af landinu mun stjórna veðrinu næstu daga að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Gular viðvaranir eru í gildi fyrir nánast allt landið vegna austan og norðaustan storms og er vegfarendum bent á að fara varlega þar sem hviður geta farið upp í 25 til 35 metra á sekúndu þegar mest lætur.

Austan- og norðaustan áttin í dag verður þannig allhvöss eða hvöss í dag með tilheyrandi stormi víða sunnan og vestan til á landinu. Þá er spáð dálítilli snjókomu norðanlands og rigningu syðri en það mun bæta í úrkomuna seinni partinn.

„Hlýnandi, hiti 1 til 8 stig síðdegis en í kringum frostmark um landið norðanvert.

Norðaustan 13-18 og rigning eða slydda á Vestfjörðum á morgun. Mun hægari og rigning í öðrum landshlutum, einkum á Austfjörðum og Suðausturlandi. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast syðst.

Austanátt með rigningu og mildu veðri á fimmtudag, en úrkomulítið síðdegis,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Gengur í austan og norðaustan 18-25 undir Eyjafjöllum og í Öræfum, síðar einnig NV-til, en víða 13-20 annars staðar. Dálítil snjókoma fyrir norðan og rigning syðra, en bætir í úrkomu seinni partinn. Hlýnandi, hiti 1 til 8 stig síðdegis en í kringum frostmark norðan heiða.

Mun hægari og rigning með köflum á morgun, einkum á Austfjörðum og SA-landi, en allhvöss eða hvöss norðaustanátt með slyddu eða rigningu á Vestfjörðum. Hiti 2 til 10 stig, mildast syðst.

Á miðvikudag:
Norðaustan 13-18 m/s og slydda á Vestfjörðum fram eftir degi, annars talsvert hægari og rigning, en þurrt að kalla á SV- og V-landi síðdegis. Hiti 1 til 8 stig.

Á fimmtudag:
Austan 8-15 með rigningu S- og A-lands og einnig á Vestfjörðum. Hiti 3 til 8 stig.

Á föstudag og laugardag:
Austlæg átt, rigning og milt veður, en þurrt N- og V-lands.

Á sunnudag:
Norðaustanátt og rigning eða slydda með köflum, en þurrt SV-lands. Hiti 2 til 7 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.