Hann starfar meðal annars sem fyrirsæta, er með sítt, ljóst og fallegt hár og vakti athygli lesenda Vísis á dögunum þegar hann var fastur í Málmey í fjóra daga án vatns og matar. Saga Heiðars Loga er aftur á móti mjög merkileg en hann var snemma greindur með mikla ofvirkni og ADHD.
„Þetta snerist allt um að fá athygli á neikvæðan hátt. Þegar ég var tólf ára byrjaði ég að stunda snjóbretti og mér fannst það geðveikt. Þar sem ég gat farið og verið í heilan dag og klárað orkuna mína. Þá í rauninni í fyrsta skipti á ævinni gat ég lagst upp í rúm, lokað augunum og sofnað. Ég hafði bara aldrei upplifað þessa tilfinningu að leggjast upp í rúm og bara sofna.“
Heiðar segist þá loksins hafa haft rými fyrir hans eigin hugsanir og loksins þögn í höfðinu.
„Ég þurfti ekki alltaf að vera á fullu. Vera með læti, vera óþekkur og hlaupa um. Enn þann dag í dag er þetta þannig ef ég eyði ekki orkunni þá get ég ekki slakað á.“
Í þættinum ræðir Heiðar Logi einnig um föðurmissinn, um ást sína á snjóbrettinu og brimbrettinu, um jóga, og dagana fjóra í Málmey. Heiðar kemur einnig inn á fyrirsætustörfin og hvað sé framundan hjá honum.
Hér að neðan má sjá sjöunda þáttinn af Einkalífinu.