Innlent

Samfylking dalar og ábyrgðin sögð Dags í Braggamáli

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson Fréttablaðið/Anton Brink
Samfylkingin tapar mestu fylgi allra borgarstjórnarflokkanna samkvæmt könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið og frettabladid.is. Aðrir flokkar í meirihluta bæta hins vegar við sig fylgi eða halda í horfinu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist, líkt og í síðustu kosningum, stærstur flokka.

Samkvæmt könnuninni myndu um þrír af hverjum tíu, sem tóku afstöðu, greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt en það er svipað og kjörfylgi flokksins í vor. Samfylkingin mælist með 21 prósent en hlaut tæp 26 prósent í kosningunum. Píratar bæta nokkru við sig og fengju 12,7 prósent atkvæða samanborið við tæp 8 í vor.

Viðreisn mælist með rúm 9 prósent nú samanborið við rúm 8 í vor. Vinstri græn mælast með ríflega 8 prósent og bætir nokkru við sig. Flokkurinn fékk 4,6 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum.

Sjá einnig: Eldri líklegri til að benda á Dag en þau yngstu á embættismenn

Séu niðurstöður könnunarinnar mátaðar við stóla borgarfulltrúa myndi meirihlutinn halda velli með þrettán fulltrúa en vera öðruvísi samansettur. Samfylkingin myndi tapa tveimur mönnum en Píratar og Vinstri græn bæta við sig einum manni hvor flokkur. Borgarstjórnarflokkur Viðreisnar myndi áfram telja tvo menn. Samsetning borgarfulltrúa minnihlutans væri óbreytt.

Bragginn við NauthólsvíkVísir/Vilhelm
Samhliða því að kanna fylgi flokkanna voru þátttakendur einnig spurðir hver þeim þætti að ætti að axla ábyrgð á framúrkeyrslu við endurbætur og viðbyggingar braggans í Nauthólsvík. Af þeim sem tóku afstöðu töldu flestir, um þriðjungur svarenda, að ábyrgðin væri borgarstjóra. Rúmlega fjórðungur taldi ábyrgðina vera meirihlutans og álíka margir, 26,2 prósent, svöruðu því að embættismenn ættu að axla ábyrgð.

Könnunin var framkvæmd 12.-15. október af Zenter rannsóknum fyrir Fréttablaðið og frettabladid.is. Um síma- og netkönnun var að ræða og var úrtakið tvískipt. Annars vegar tilviljunarúrtak einstaklinga 18 ára og eldri úr könnunarhópi Zenter, og hins vegar tilviljunar­úrtak 18 ára og eldri úr þjóðskrá. Um íbúa í Reykjavík var að ræða en gögnin voru vigtuð eftir kyni og aldri. Úrtakið var 1.450 manns og var svarhlutfall 54 prósent.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×