Innlent

Stefnt að opnun heilsugæslu fyrir konur

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Heilbrigðisráðherra stefnir að opnun sérstakrar heilsugæslu fyrir konur sem allra fyrst. Ljósmæður myndu sjá um starfsemina og er hugsunin að nýta betur sérþekkingu þeirra.

Heilbrigðisráðherra segir hugmyndina í raun komna frá ljósmæðrum og í samtali við fréttastofu lýsa nokkrar þeirra ánægju með tillöguna. Þær benda á að ýmiss konar upplýsingum um heilsu og áfallasögu kvenna sé safnað saman í mæðravernd en eftirfylgni fellur niður um leið og konan fæðir barnið.

Með þessu megi nýta sérþekkingu ljósmæðra enn betur. „Að þeirra hlutverk útvíkkist í raun og veru í það að þjóna konum á öllum aldri. Þá er ég að tala um þau heilsufarsviðfangsefni sem koma upp. Ég nefni bara breytingarskeið og túrverki sem er ekki beinlínis það sem tengist meðgöngu eða fæðingu," segir Svandís Svavarsdóttir.

Þetta er liður í eflingu heilsugæslunnar og hugsunin er að konur á öllum aldri gætu pantað tíma á sérstakri heilsugæslu fyrir konur.

„Við myndum þróa verkefnið með því að byrja kannski á einum stað í Reykjavík og einum úti á landi og sjá hvernig því yndi fram," segir Svandís.

Verkefnið er enn á frumstigi en markmiðið er að opna úrræðið sem allra fyrst. „Frekar en að bíða eftir að stóra skýrslan komi, eða einhver niðurstaða stórs starfshóps eða eitthvað slíkt. Vegna þess að ég held að faglegi viljinn sé fyrir hendi, þekkingin er fyrir hendi og ég er sannfærð um að þörfin sé líka fyrir hendi," segir Svandís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×