Innlent

Gömlum súrheysturni breytt í heilsuhótel

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Gamall súrheysturn hefur fengið nýtt hlutverk í Skeiða og Gnúpverjahreppi því honum hefur verið breytt í heilsuhótel með fjórum herbergjum. Fjölbreyttir litir ljósa í herbergjunum eiga að auka vellíðan gesta turnsins.Á bænum Kletti sem er nýbýli frá Sandlækjarkoti í Skeiða og Gnúpverjahreppi hefur staðið súrheysturn frá 1957. Turninn nýttist alltaf vel til verkunar votheys en síðustu ár hefur hann staðið votheyslaus og vantaði því nýtt hlutverk. Ásgeir Eiríksson brá þá á það ráða að breyta turninum í heilsuhótel.

 

„Ég ætlaði ekkert að gera þetta, ég ætlaði að fara að búa til jógastöð en arkitektinn vildi endilega byggja turn. Það endaði með því að hann hafði svo flottar hugmyndir að ég réðst í turnbyggingu, jógastöðin bíður“, segir Ásgeir.

 

Súrheysturninn er mjög snyrtilegur og fallegur.

 

„Við höfum reynt er eins og hægt er að hafa þetta þannig að það séu lítil stílbrot og gert þetta eins einfalt og hægt er“.

 

Útsýnið af efstu hæð turnsins er stórkostlegt þar sem fjöllin og fagurt umhverfi sveitarinnar blasir við. Þá eru herbergin mjög snyrtileg og koma skemmtilega út í turninum. Ásgeir leggur mikið upp úr mismunandi ljósum í turninum.

 

„Þetta er svona Led ljós í regnbogans litum en það kemur heim og saman við það sem ég ætla að leiðbeina fólki með en það eru bæði tilfinningar og eins líka fræði Kínverjanna eins og jóga og fræði Indverjanna. Ég mun tvinna þetta allt saman og nýta mér þessa ljósamöguleika því þar bak við er ákveðin þekking sem getur verið gott fyrir okkur að vita svolítið um“.

 

Ásgeir hefur fengið miklu betri og jákvæðari viðbrögð við turninum heldur að hann átti von á.

 

„Já, fólki virðist líka við þetta. Það merkilega er að gestirnir senda mér konfekt, þannig að ég þarf að skoða hvað er svona merkilegt, ég sá það ekki sjálfur fyrr en ég fór að fá konfektkassa“, segir Ásgeir hlægjandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.