Innlent

Líffræðikennarar segja skorta raunvísindakennslu í skólum

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Stytting náms er sögð hafa bitnað á raungreinakennslu.
Stytting náms er sögð hafa bitnað á raungreinakennslu. Fréttablaðið/Anton brink
Samlíf, samtök líffræðikennara, lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu raungreina í íslenskum skólum. Í bréfi til Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, segir stjórn samtakanna að niðurskurður á námsframboði í tengslum við styttingu framhaldsskólanáms í þrjú ár hafi bitnað á raungreinum.

Samtökin segja það vera áhyggjuefni á tímum hnattrænnar hlýnunar og kröfu um sjálfbæra nýtingu auðlinda að nemendur ljúki stúdentsprófi án þess að hafa fengið kennslu í undirstöðugreinum þegar kemur að umgengni okkar við náttúruna.

„Í framhaldi af styttingu framhaldsskólanna væri eðlilegra að fjölga kennslustundum í náttúrugreinum í grunnskóla, sérstaklega með tilliti til þess að þeir sem fara á aðrar brautir en náttúrufræðibraut útskrifast í mörgum tilfellum úr framhaldsskóla án þess að taka einn einasta raungreinaáfanga,“ segir í bréfinu. Einnig er bent á að verkleg kennsla í raungreinum hafi dregist saman og að fáir skólar hafi tök á að bjóða upp á verklegar æfingar og vettvangsferðir.

„Stjórn Samlífs undrast að ráðuneyti sem í orði kveðnu vill fjölga nemendum í raungreina- og tækninámi sporni ekki við þessari skerðingu og kallar eftir að raungreinar; líffræði, efnafræði, eðlisfræði og jarðfræði, verði ríkur hluti af íslensku stúdentsprófi,“ segir í bréfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×