Innlent

Hættu við að hafa B-svæði á tónleikadegi Arcade Fire

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Á tónleikunum kom í ljós að hætt hefði verið við tvískiptingu salarins.
Á tónleikunum kom í ljós að hætt hefði verið við tvískiptingu salarins. Vísir/tryggvi Páll
Ákveðið var að hætta við tvískiptingu tónleikasalarins þar sem hljómsveitin Arcade Fire kom fram í kvöld. Fram til dagsins í dag var hægt að kaupa ódýrari miða inn á svokallað „B-svæði“ sem veitir aðgang að aftari helming salarins.

Ástæðan fyrir því að ákveðið var að hverfa frá tvískiptingu salarins er sú að svo fáir miðar seldust inn á B-svæði, að því er fram kemur í svari frá Tix.is. Friðjón Friðjónsson, almannatengill,  er ekki viss um að það ríki mikill skilningur á meðal þeirra sem keyptu sér miða á A-svæðið: „Bara til að komast að því að það er ekkert svæði A“, segir Friðjón á Twittersíðu sinni.

Friðjón segir að hann hafi heyrt marga velta vöngum yfir fyrirkomulaginu: „Borgaði ég þá 4000 kr. aukalega til einskis?“ er spurning sem Friðjón segist hafa heyrt oft á tónleikunum.

Stefán Gunnarsson, tónleikagestur, segir að hér sé um að ræða „svik og prettir“.  Tónleikahaldarar hefðu átt að láta þá vita sem keyptu dýrari miðann um breytt fyrirkomulag svo þeir hefðu getað mætt fyrr til að tryggja sér gott pláss á tónleikunum.

Þá segir í svari Tix miðasölu að þetta hafi ekki legið fyrir fyrr en seint í dag. „Svo er sá fjöldi sem bætist við frá B svæðinu mjög lítill og hefur ekki mikil áhrif á fjölda þeirra sem eru fyrir framan sviðið“.

Tónleikarnir fara fram í nýju Laugardalshöllinni í kvöld en Kiriyama Family hitaði upp fyrir Arcade Fire.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×