Lífið

Stefán Karl í Sjálfstæðu fólki: „Ég finn mjög til með fólki sem finnur til“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stefán Karl Stefánsson féll frá á mánudaginn, þann 21. ágúst.
Stefán Karl Stefánsson féll frá á mánudaginn, þann 21. ágúst.

Óhætt er að segja að Stefán Karl Stefánsson leikari hafi snert hjörtu þjóðarinnar undanfarin ár. Stefán Karl féll frá á mánudaginn en leikarinn 43 ára hafði barist við illvígt gallgangakrabbamein í tvö ár.

Stefán Karl Stefánsson var sennilega sá íslenski leikari sem flestir jarðarbúar þekktu í sjón og gera raunar enn. Milljónir manna um allan heim ólust upp við að hrópa hástöfum á hann í gegn um sjónvarpsskjáinn, svona rétt til að láta hann vita að það sæist í gegn um nýjasta dulargervi Glanna Glæps.

Stefán lék í fjölmörgum íslenskum verkum og heillaði þjóðina með persónuleika sínum undanfarna tvo áratugi.

Þann 1. apríl árið 2012 var Stefán Karl gestur í þættinum Sjálfstætt fólk á Stöð 2 og ræddi Jón Ársæll Þórðarson við Stefán um lífið og leiklistina.

Stefán Karl var alltaf mjög einlægur eins og sést í umræddum þætti af Sjálfstæðu fólki.

Saman fóru þeir meðal annars í heimsókn í höfuðstöðvar Latabæjar, í heimsókn til móður Stefáns og spjölluðu saman við Hafnarfjarðarhöfn.

Stefán ræddi tímann í Latabæ og þegar hann landaði stóru hlutverki sem Trölli í söngleiknum um hvernig þessi höfuðpersóna Dr. Seuss stal jólunum í söngleik sem settur var upp í Los Angeles.

Stefán var lagður í einelti í barnæsku og opnaði sig um það við Jón Ársæl. Stebbi var lærður flugmaður og með mikla dellu fyrir flugvélum. Eineltið mótaði Stefán Karl og taldi hann að hægt væri að minnka einelti í samfélaginu. 

„Ég finn mjög til með fólki sem finnur til,“ sagði Stefán til að mynda í samtali við Jón sem lýsir þeim manni sem Stefán Karl var. 

Hér að neðan má sjá þáttinn frá árinu 2012 í heild sinni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.