Innlent

Stuðningsmenn Miðflokksins neikvæðastir í garð #MeToo

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konur voru töluvert líklegri en karlar til að telja #MeToo-umræðuna jákvæða fyrir íslenskt samfélag.
Konur voru töluvert líklegri en karlar til að telja #MeToo-umræðuna jákvæða fyrir íslenskt samfélag. Myndvinnsla/Garðar
Meirihluti landsmanna telur umræðu undanfarinna mánaða um #MeToo-hreyfinguna jákvæða fyrir íslenskt samfélag. Þetta kemur fram í könnun MMR.

Tæp 71 prósent svarenda sögðu umræðuna jákvæða og þar af sögðu 37 prósent #MeToo-umræðuna mjög jákvæða. 17 prósent svarenda töldu umræðuna hvorki jákvæða né neikvæða en tæp 13 prósent töldu hana neikvæða, þar af 5 prósent mjög neikvæða.

Þá var töluverður munur á afstöðu svarenda eftir lýðfræðihópum en konur voru til að mynda töluvert líklegri en karlar til að telja #MeToo-umræðuna jákvæða fyrir íslenskt samfélag. 82 prósent kvenna sögðu umræðuna jákvæða en 60 prósent karla voru sama sinnis. 46 prósent kvenna sögðu #MeToo-umræðuna mjög jákvæða en einungis 27 prósent karla.

Karlar (18 prósent) voru hins vegar líklegri heldur en konur (7 prósent) til að segja umræðuna neikvæða en 8 prósent karla kváðu umræðuna vera mjög neikvæða fyrir samfélagið.

Vinstri græn jákvæðust en Miðflokksfólk neiðkvæðast

Einnig var nokkuð afgerandi munur á afstöðu svarenda eftir stjórnmálaskoðunum.  Stuðningsfólk Samfylkingar (87 prósent) og Vinstri grænna (91 prósent) var líklegast allra til að telja #MeToo-umræðuna vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag.

32 prósent stuðningsmanna Miðflokksins, 22 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks og 16 prósent stuðningsmanna Flokks fólksins sögðu umræðuna hins vegar neikvæða fyrir samfélagið. Tæp 17 prósent stuðningsfólks Miðflokksins sögðu umræðuna mjög neikvæða.

Könnunin var framkvæmd dagana 16. til 22. maí 2018 og var heildarfjöldi svarenda 929 einstaklingar, 18 ára og eldri.


Tengdar fréttir

Elín frumsýnir #metoo lagið

"Lagið er innblásið af #metoo hreyfingunni og textinn lýsir í rauninni þeim aðstæðum sem konur geta lent í t.d. að verða "óvart“ óléttar og þurfa kannski að takast á við það einar,“ segir tónlistarkonan Elín Halldórsdóttir sem frumsýnir nýtt lag á Vísi í dag.

„Meiri niðurlæging en nokkur manneskja á að upplifa“

Helga Sigrún Hermannsdóttir varð fyrir stafrænu kynferðisofbeldi í formi myndar sem fór í dreifingu á netinu og dúkkaði reglulega upp yfir fimm ára tímabil. Erfitt var fyrir Helgu að aðhafast nokkuð í málinu þar eð myndin var ekki af henni, en nafn hennar var þó ávallt samofið dreifingunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.