Innlent

Andarnefjur leituðu inn í höfnina á Dalvík

Atli Ísleifsson skrifar
Andarnefjurnar höfðu það náðugt í höfninni á Dalvík í morgun.
Andarnefjurnar höfðu það náðugt í höfninni á Dalvík í morgun. Mynd/júlíus
Fimm andarnefjur leituðu inn í höfnina á Dalvík í morgun. Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla á Dalvík, segist ekki vita til þess að slík hvalategund hafi áður leitað inn í höfnina í bænum.

„Þær voru fimm saman og það fréttist af þeim fyrir utan hafnarmynnið í gær. Einhverjir fóru út á bát og fylgdust með þeim og svo voru þær komnar inn í höfnina. Það er mjög sérstakt þar sem hafnarmynnið hérna er þröngt. Þær voru þarna í morgunblíðunni, það var spegilslétt þannig að þær sáust vel,“ segir Júlíus.

Hann segist hafa talað við nokkra á bryggjunni og að þeir hafi ekki vitað til þess að andarnefjur hafi leitað þangað inn áður. „Andarnefjur hafa verið að koma á Akureyri og það er spurning hvort þær séu þær sömu. Það voru nokkrir ferðamenn komnir niður á bryggju og þeir áttu ekki orð. Þeim þótti þetta svo enn merkilegra þegar ég sagði þeim að við værum ekki vön þessu hér heldur.

Nú er bara að vonast til að þær dundi sér hérna í höfninni næstu vikuna. Það væri auðvitað stórkostlegt ef þær yrðu hérna á Fiskideginum mikla,“ segir Júlíus en hátíðin stendur yfir dagana 9. til 12. ágúst.

Mynd/júlíus



Fleiri fréttir

Sjá meira


×