Innlent

Á 141 kílómetra hraða við Kringluna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ökumaður var stöðvaður á ógnarhraða við Kringluna.
Ökumaður var stöðvaður á ógnarhraða við Kringluna. Vísir

Fjölmargir ökumenn komust í kast við lögin í gærkvöldi og nótt. Einn þeirra var stöðvaður í Breiðholti á öðrum tímanum í nótt, en aksturslag hans benti til að hann væri undir áhrifum vímuefna.

Það reyndist vera raunin ef marka má dagbók lögreglunnar. Fíkniefnapróf sem ökumaðurinn tók benti til að hann hafði innbyrt fimm tegundir fíkniefna áður en hann settist undir stýri. Hann var þó látinn laus að lokinni sýna- og skýrslutöku.

Ökumaður bifhjóls var jafnframt stöðvaður eftir hraðakstur við Kringluna skömmu fyrir klukkan 22 í gærkvöld. Hann hafði mælst á 141 km/klst hraða, en þar er hámarkshraðinn aðeins 60 km/klst. Ökumaðurinn var því sviptur ökuréttindum á staðnum og sektaður.

Þá brást lögreglan við tilkynningu um líkamsárás í Austurborginni á öðrum tímanum í nótt. Þrátt fyrir að árásarmaðurinn hafi verið á bak og burt þegar lögreglumenn mættu á staðinn er talið vitað hver var þar að verki. Jafnframt er tekið fram í skeyti lögreglunnar að þolandi mannsins hafi aðeins hlotið minniháttar áverka.

Einnig slasaðist erlendur karlmaður á miðnæturgöngu í Esjuhlíðum í nótt. Er hann sagður hafa verið að ganga á hálum, stórgrýttum slóða þegar hann hrasaði og féll marga metra. Hann hlaut áverka í andliti og höfði og var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.