Innlent

Nær þrjú hundruð reyna að komast inn í læknisfræði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Vísir/GVA
Alls skráðu sig 284 manns í inntökupróf í læknisfræði við Háskóla Íslands og 64 inntökupróf í sjúkraþjálfun, að því er fram kemur í frétt á vef HÍ. Prófið hófst í gær og lýkur í dag.

Í læknisfræði verða teknir inn 50 nemendur, en þeir hafa verið 48 undanfarin ár, og í sjúkraþjálfun verða teknir inn 35 nemendur. Sama próf er lagt fyrir alla þátttakendur og þeir sem standa sig best á prófinu fá að skrá sig í námið.

Læknadeild Háskóla Íslands stendur fyrir prófinu og er prófað í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð. Skráningu í prófið lauk 20. maí síðastliðinn.

Eins og áður sagði tekur inntökuprófið tvo daga og samanstendur af fjórum tveggja tíma próflotum og svokölluðu Aðgangsprófi fyrir háskólastig (A-prófi) sem tekur 3,5 klst. A-prófið gildir 30% af inntökuprófinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×