Innlent

Ók aftur af vinstri akrein yfir á þá hægri

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Um fimmtíu ár eru síðan skipt var yfir í hægri umferð á Íslandi. Forvarnir og vitundarvakning vegfarenda hefur orðið til þess að slysum á börnum í umferðinni hefur fækkað um rúm 30 prósent frá aldamótum.

Mikill undirbúningur og þrotlaus vinna margra aðila var aðdragandinn að því að skipt var yfir í hægri umferð 26. maí 1968, en rúmum fjórum árum áður ályktaði Alþingi að skora á þáverandi ríkisstjórn að hefja hið allra fyrsta undirbúning að því, að hægri handar akstur yrði tekinn hér á landi.

Breytingin var gerð með táknrænum hætti á Skúlagötu á sínum tíma fyrir framan hús Ríkisútvarpsins sem var ekki tilviljun því með þeim hætti var hægt að lýsa því sem fyrir augum bar í beinni útsendingu í útvarpi.

Bíllinn sem fór fyrstur frá vinstri yfir á hægri akrein á sínum tíma var notaður til þess að minnast tímamótanna í dag og það með sama hætti, á sama stað og með sama bílstjóra en Valgarð Briem átti sæti starfshópnum sem vann að breytingunum á sínum tíma sem hann segir marga hafa verið á móti.

Valgarð Briem og Þórólfur Árnason setjast inn í bílinn við athöfnina í dagVísir/Jóhann K. Jóhannsson
„Og þeir skrifuðu greinar og héldu fundi og þarf var prestur, ákaflega vinsæll prestur, sem að hélt ræðu á fundinum og spurði, hver þurrkar blóð og þerrar þau tár sem þessi breyting hefur í för með sér,“ sagði Valgarð Briem, þáverandi formaður framkvæmdanefndar hægri umferðar þegar hann minntist tímamótanna í dag.

Með Valgarð í bílnum í dag var forstjóri Samgöngustofu en þar fyrir aftan þá mættist nýi tíminn, bíll sem er sjálfkeyrandi að hluta, 17 ára ökumanni og með honum Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra.

Fram kom við athöfnina í dag að umferðarslysum á börnum hefur fækkað á undanförnum árum. En frá aldamótum nemur fækkunin 35% en þar má að mestu þakka betri öryggisbúnaði og forvörnum.

„Ég ætla ekkert endilega að segja að fjármagnið skorti. Þetta er allt upp í hausnum á fólki. Sumt er hægt að gera mjög ódýrt að hafa áhrif og fræðsla er oft á tíðum það sem skilar bestum árangri,“ sagði Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu við athöfnina í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.