Innlent

Felldu tólf út af kjörskrá Árneshrepps

Birgir Olgeirsson skrifar
Djúpavík tilheyrir Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins.
Djúpavík tilheyrir Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins. visir/stefán
Tólf einstaklingar hafa verið felldir út af kjörskrá Árneshrepps. Var það meirihluti hreppsnefndar Árness sem ákvað það á fundi sínum í kvöld.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti hreppsins, segir í samtali við Vísi að meirihluti hreppsnefndarinnar hafi ákveðið að fara eftir úrskurði Þjóðskrár og fella þessa tólf einstaklinga af kjörskránni.

18 einstaklingar fluttu lögheimili sitt í hreppinn nú skömmu fyrir kosningar. Þjóðskrá tók lögheimilisflutninganna fyrir og mat það svo að tólf af þeim hafi verið ólöglegir. Eva Sigurbjörnsdóttir segir að auk þeirra tólf hafi einn einstaklingur til viðbótar áður verið felldur út af kjörskrá en einn af þeim sem flutti lögheimili sitt hafi verið staðfestur á kjörskrá.

Eftir standa fjórir einstaklingar en Eva segir hreppsnefndina bíða eftir úrskurði Þjóðskrár í þeirra málum. Er vonast til að Þjóðskrá ljúki störfum í málum þessara fjögurra einstaklinga á morgun.

Fimm sitja í hreppsnefnd Árness en þrír þeirra voru samþykkir því að fella þessa tólf út af kjörskrá en tveir voru á móti.

Nokkrir mættu á fund hreppsnefndar til að fylgjast með störfum hennar í kvöld og höfðu uppi mótmæli vegna ákvörðunar meirihluta nefndarinnar að sögn Evu. Hún segir hins vegar fundinn hafa farið nokkuð friðsamlega fram.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.