Innlent

Kúabændum hefur fækkað um 1350 á þrjátíu árum

Magnús Hlynur Hreiðarsson og Þórdís Valsdóttir skrifa

Á sama tíma og mjólkurbændum fækkar og fækkar þá hefur mjólkurframleiðsla í landinu aldrei verið eins mikil og um þessar mundir og ekki minnkar hún í sumar þegar kýrnar komast á grænar grundir.

Egill Sigurðsson, formaður stjórnar Auðhumlu sem er fyrirtæki í eigu kúabænda, segir að framleiðendum hafi fækkað gríðar mikið á síðustu þrjátíu árum eða svo, en hann var einn af framsögumönnum á aðalfundi landssambands kúabænda sem fór nýlega fram á Selfossi.

„Í árslok 1986 voru 1929 framleiðendur að framleiða mjólk. Þeim hefur sem sagt fækkað um 1350 frá áramótum ´86 til ´87 til síðustu áramóta. Þetta hefur gríðarleg áhrif á rekstur afurðarstöðvanna, mjólkursöfnun og slíkt. Mjólkurframleiðslan hefur aukist á móti en þetta er staðreyndin í þessu,“ segir Egill.

Auðhumla og Kaupfélag Skagfirðinga taka í dag á móti mjólk frá kúabændum en fyrir þrjátíu árum voru sautján fyrirtæki sem tóku á móti mjólkinni. Egill segir að kúabændum hafi fækkað að meðaltali um 42 til 44 á ári síðustu árin.

Verðlagsmál mjólkurvara er eitt af þeim málum sem kúabændur hafa áhyggjur af. „Ég held bara að það kerfi sem við höfum starfað eftir í opinberri verðlagningu á meginhluta mjólkurvara og þar með afurðastöðu og öryggi bænda, er gengið sér algjörlega til húðar. Við getum ekki haft þetta kerfi áfram. Við verðum að finna aðrar leiðir til að verðleggja þessar vörur og við verðum að hafa það inn í iðnaðinum að mögulega geta brugðist við síbreytilegum markaði frá einum tíma til annars og frá einum mánuði til annars,“ segir Egill Sigurðsson formaður stjórnar Auðhumlu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.