Lífið

María Ólafs mætt aftur í Eurovision en núna í öðru hlutverki

Stefán Árni Pálsson í Lissabon skrifar
Ari Ólafsson steig á sviðið í Altice höllinni í Lissabon í Portúgal í kvöld og flutti lagið Our Choice í dómararennslinu. Vægi rennslisins er jafn mikið og þegar Evrópubúar gefa sín atkvæði á fyrra undanúrslitakvöldinu á morgun. Ari var annar í röðinni á sviðið í kvöld og verður það einnig á morgun.

Íslenski hópurinn er fjölmennur og eru alls 18 manns á bakvið Ara í keppninni. Felix Bergsson er farastjóri hópsins.

„Maður þarf að skipuleggja mikið og passa að allir séu alltaf á réttum stað og á réttum tíma. Svo verður maður einnig að passa að öllum líði vel,“ segir Felix og segir hann að dómararennslið sé mjög mikilvægt. 

„Það verður mjög gaman að sjá hvernig Ara á eftir að ganga að selja lagið og þennan fína boðskap.“

Fjölmargir Íslendingar fylgja hópnum í Lissabon og ein af þeim er söngkonan María Ólafsdóttir sem kom fram fyrir Íslands hönd í Eurovision árið 2015 í Austurríki.

„Ég er hér sem aðstandandi. Kærasti minn er á sviðinu þetta árið og ég er bara mætt til að styðja,“ segir María en kærasti hennar er Gunnar Leó Pálsson sem er í bakraddarsveit Ara.

„Það er bókað alveg fáránlega gaman að vera Ari núna en um leið einnig mjög stressandi. Það er pressa á manni og kvöldið í kvöld er alveg jafn mikilvægt og á morgun.“

María Ólafs kemur fram á Eurocafé skemmtistaðnum í Lissabon á miðvikudagskvöldið og tekur þá lagið Unbroken sem hún flutti í Austurríki á sínum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×