Innlent

Sindri handtekinn eftir ábendingu frá vegfaranda í Amsterdam

Birgir Olgeirsson skrifar
Sindri var handtekinn í götunni Damrak, sem er á milli Konungashallarinnar og lestarstöðvarinnar í miðborg Amsterdam.
Sindri var handtekinn í götunni Damrak, sem er á milli Konungashallarinnar og lestarstöðvarinnar í miðborg Amsterdam. Vísir/Getty
Sindri Þór Stefánsson var í för með tveimur manneskjum þegar hann var handtekinn í miðborg Amsterdam síðastliðið sunnudagskvöld eftir að lögreglu þar í borg hafði borist ábending um hann frá vegfaranda.

Það var um klukkan sjö að staðartíma síðastliðið sunnudagskvöld sem vegfarandi gekk inn á lögreglustöð við götuna Nieuwezijds Voorburgwal í miðborg Amsterdam og tilkynnti lögreglu að hann hefði séð Sindra Þór Stefánsson í borginni sem væri eftirlýstur af lögreglu á Íslandi.

Franklin Wattimena, fjölmiðlafulltrúi embættis héraðssaksóknara í Amsterdam, segir tvo lögreglumenn hafa farið af stað til að leita að Sindra í borginni.

Þeir fundu hann svo í götunni Damrak, sem sem liggur á milli Konungshallarinnar og lestarstöðvarinnar í miðborginni, ásamt tveimur manneskjum um klukkutíma eftir að ábendingin hafði borist.

Sindri fannst í götunni Damrak sem liggur á milli Konungshallarinnar og aðallestarstöðvarinnar í Amsterdam.Vísir
Wattimena segir aðeins Sindra hafa verið handtekinn og hinar manneskjurnar tvær hafi ekki verið yfirheyrðar. Wattimena segir Sindra hafa verið með falsað vegabréf á sér en hann hefði ekki streist á móti handtöku lögreglumannanna.

Sindri Þór verður leiddur fyrir dómara síðdegis í dag þar sem ákveðið verður hvort hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald á meðan framsalsferlinu stendur.

Þar verður einnig tekin fyrir afstaða Sindra til framsals til Íslands. Ef Sindri samþykkir framsal gæti ferlið tekið innan við tíu daga, ef hann leggst gegn því tekur við ferli fyrir dómstólum sem getur tekið marga mánuði.

Í svari sem barst frá dómsmálaráðuneytinu á Íslandi við fyrirspurn Vísis kemur fram að gert sé ráð fyrir að formleg framsalsbeiðni verði send hollenska dómsmálaráðuneytinu í þessari viku, en áður en slík beiðni er send þarf Sindri að koma fyrir dómara í Hollandi. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.